„Hvaða heilvita manneskja vill starfa í svona umhverfi?“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segist ekki vilja svara því að svo stöddu hvort Efling sé á leið úr ASÍ.

„Ég ætla svo sannarlega ekki að útiloka það, en Eflingarfélagar þurfa að ræða afstöðu sína í því. Það er stórt málefni sem þarf að taka á stórum vettvangi með félagsfólki og við munum taka það þegar við metum það sem svo,“ sagði hún við mbl.is eftir að hún, Ragnar Þór Ing­ólfs­son, for­maður VR og Vil­hjálmur Birg­is­son, for­maður Starfs­greina­sam­bands­ins og Verka­lýðsfé­lags Akra­ness, gengu út af þingi ASÍ ásamt stuðningsfólki sínu rétt um klukkan fjögur í dag.

Skömmu áður höfðu þau öll dregið framboð sitt til forystu í Alþýðusambandinu til baka.

Kæmi í veg fyrir uppbyggingu Eflingar

Spurð af hverju þau hafi tekið þessa ákvörðun á þessum tímapunkti segir Sólveig Anna að þeim hafi orðið ljóst að það væri til einskis að standa í þessu.

„Og raunverulega verra en það, því þetta myndi grafa undan allri getu okkar að byggja upp okkar eigið félag og vera á þeim stað sem við eigum fyrst og fremst að vera, sem er innan Eflingar, og breyta því í máttugasta og besta baráttutæki verka- og láglaunafólks í landinu.“

Sólveig og félagar hennar hafi setið undir því að vera gerendur og ofbeldisfólk og vísar hún þar til greinar þar sem fjöldi verkalýðsleiðtoga gagnrýndi Ragnar Þór og Sólveigu Önnu og framboð þeirra.

Segir hún að andstæðingar hennar hafi reynt að ýta henni niður og gert henni upp sakir án þess að færa sönnur fyrir þeim staðhæfingum.

„Við sáum að það myndi aldrei hætta heldur magnast upp og versna. Hvaða heilvita manneskja vill starfa í svona umhverfi? Ekki hægt. Af hverju ekki að nota alla þá miklu og augljósu orku sem við höfum yfir að búa í annað en þetta,“ segir Sólveig Anna við mbl.is.

„Við komum ekki aftur hingað“ 

„Við komum ekki aftur hingað,“ segir hún, spurð hvort stuðningsfólk hennar muni áfram sitja þingið og bætir svo við:

„Alþýðusambandið hefur ekkert umboð frá okkur til að gera nokkurn skapaðan hlut. Efling fer sameinuð fram í kjaraviðræður. Alþýðusambandið mun ekki hafa neina aðkomu að okkar kjarabaráttu.“

Spurð hvort hún ætli að mynda bandalag með VR í kjaraviðræðum fram undan segir hún að það eigi eftir að koma í ljós.

Ekki hrædd við að taka slagi

Þremenningarnir, ásamt stuðningsfólki sínu, gengu nú af fundinum, degi áður en atkvæðagreiðsla átti að fara fram um forystusveit sambandsins. Spurð hvort útgangan hafi eitthvað tengst væntum úrslitum kosninganna á morgun segir Sólveig Anna svo ekki vera.

„Það er ekki þess vegna. Enginn getur horft á mig og félaga mína í Eflingu og haldið að við séum hrædd við að taka slagi.“

Hún gagnrýnir þá Ólöfu Helgu Adolfsdóttur, fyrrverandi varaformann Eflingar og núverandi frambjóðanda til forseta ASÍ, harðlega.

„Það er magnað að einhver hafi viljað styðja hana, en náttúrlega margir sem hafa gert það. Að mínu mati hefur það fólk hefur sýnt og sannað að það er ekki bara með slaka dómgreind heldur er að glíma við einhverja siðferðisbresti.“

„Fulltrúi fámenns hálaunakarlahóps

Beinir hún orðum sínum næst að Trausta Jör­und­ar­syni, formanns Sjó­manna­fé­lags Eyja­fjarðar, en hann bauð sig fram í embætti 2. varaforseta ASÍ í dag.

„Þessi maður sem gaf kost á sér til annars varaforseta. Hann er fulltrúi fámenns hálaunakarlahóps innan Alþýðusambandsins. Skrifaði grein ásamt Ólöfu og fleirum þar sem ég var sögð gerandi án þess að það væri reifað frekar. Þeirra framkoma og orð dæma sig sjálf,“ segir hún að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert