Kristján íhugar stöðu sína sem forseti ASÍ

Kristján Þórður Snæbjarnarson segist vera sleginn yfir fréttum dagsins.
Kristján Þórður Snæbjarnarson segist vera sleginn yfir fréttum dagsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti ASÍ, segist íhuga stöðu sína og framboð eftir fréttir dagsins. Þing ASÍ mun halda áfram klukkan tíu í fyrramálið.

Síðdegis í dag drógu Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og Verkalýðsfélags Akraness, framboð sín til baka. 

Vissi ekki hvað var í vændum

„Þetta er auðvitað sláandi staða sem við erum í núna. Þinginu hefur verið frestað til klukkan tíu í fyrramálið. Við munum þurfa að fara yfir stöðuna þangað til og á þinginu,“ segir Kristján í samtali við mbl.is.

Hann segist ekki hafa verið meðvitaður fyrirfram um þá atburðarás sem væri að fara að eiga sér stað.

„Ekkert þannig, ég vissi náttúrlega af dagskrárbreytingartillögu sem við fórum með fram.“

Hugsar málið til morguns

Kristján kveðst bæði vera að íhuga stöðu sína sem og framboðs síns í ljósi þeirrar stöðu sem sambandið standi frammi fyrir. Sólveig Anna sagðist fyrr í dag vera að skoða það hvort draga ætti Eflingu út úr sambandinu. Vilhjálmur sagði sambandið vera umboðslaust.

„Auðvitað þarf maður bara að sjá hvernig málin þróast til morguns og hvað við gerum,“ segir Kristján. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert