Stjórnvöld hljóti að vilja ganga frá málinu

Tryggvi Rúnar Brynjarsson segir ekki hægt að tala um réttlæti …
Tryggvi Rúnar Brynjarsson segir ekki hægt að tala um réttlæti fyrr en Guðmundar- og Geirfinnsmálum verði lokið í heild. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Við ætlum að mæta á Austurvöll laugardaginn 15. október kl. 14:00 til að sýna Erlu Bolladóttur samstöðu og mótmæla ranglætinu sem hún hefur verið beitt í 49 ár,“ segir í upphafi lýsingar á viðburði sem þau Tryggvi Rúnar Brynjarsson og Elínborg Harpa blása til á Facebook, en þar er um að ræða samstöðufund með Erlu Bolladóttur á morgun.

„Ég er dóttursonur eins þeirra sem voru ranglega dæmd á sínum tíma, Tryggvi Rúnar, afi minn og nafni, var dæmdur í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu,“ segir Tryggvi Rúnar Brynjarsson í samtali við mbl.is. „Hann var svo sýknaður með dómi Hæstaréttar árið 2018 og það er búið að gangast við okkar kröfum og ég er búinn að heyra svo oft upp á síðkastið eitthvað eins og „jæja, nú er bara komið réttlæti í þessu máli“ en þá segi ég, og það er mín sannfæring, að þessu máli er ekki lokið,“ segir Tryggvi Rúnar.

Vilja rannsóknarnefnd

Kveður hann ekki um réttlæti að ræða fyrr en málinu sé lokið í heild, fara verði almennilega yfir allar rangar sakargiftir og sýkna beri Erlu. „Ég kem inn í þetta sem aðstandandi og er stuðningsmaður hennar, vinur hennar og þykir vænt um hana. Hugmyndin er að hún finni að við erum fleiri sem styðjum við hennar málstað,“ heldur Tryggvi Rúnar áfram.

Erla Bolladóttir hefur marga hildina háð í langvinnasta og erfiðasta …
Erla Bolladóttir hefur marga hildina háð í langvinnasta og erfiðasta sakamáli Íslandssögunnar, Guðmundar- og Geirfinnsmálinu sem hófst með hvarfi tveggja manna, í janúar og nóvember 1974, og er enn ekki að fullu lokið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann segir dagskrána á morgun verða orkumikla og snarpa og muni þar ýmsir ræðumenn kveðja sér hljóðs. „Markmiðið er að fara yfir stöðuna í málinu og velta því fyrir okkur hvað hægt sé að gera. Ég og fleiri veltum fyrir okkur því tæki sem Alþingi hefur til að stofna rannsóknarnefnd og við erum svolítið að velta því upp á fundinum á morgun,“ segir hann enn fremur.

Stuðningsfólk Erlu mótmæli allri sögu málsins en horfi einnig fram á veginn að sögn Tryggva Rúnars. Er hann bjartsýnn á að hópurinn nái sínu fram á efsta degi?

„Já, ég er það, ég held að það hljóti að vera meirihluti á þingi fyrir slíkri tillögu og ég veit að þarna inni er gott fólk sem getur smíðað slíka tillögu svo það sé hægt að grafa þetta mál og ganga frá þessu. Ég held að stjórnvöld hljóti að vilja gera það á endanum, ég skil ekki að stjórnvöld nenni enn að vera með svona ótrúlegar varnir eins og þau eru með í hennar [Erlu] máli enn þann dag í dag,“ segir Tryggvi Rúnar Brynjarsson um samstöðufundinn á Austurvelli á morgun.

Viðburðurinn á Facebook

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert