Bjargað eftir að vera föst í 50 klukkutíma

Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug meðfram vegum að leita að fólkinu.
Þyrla Landhelgisgæslunnar flaug meðfram vegum að leita að fólkinu. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

„Það var búið að vera kolvitlaust veður um helgina, en í gær var það skárra en samt enn mjög kalt,“ segir Sigurður Árni Vilhjálmsson formaður Björgunarsveitarinnar Dagrenningar á Hólmavík. Neyðarkall barst til lögreglunnar á Vestfjörðum seinnipartinn í gær vegna ungs fólks sem var á leiðinni vestur en ekkert hafði heyrst frá í tvo sólarhringa.

Allt tiltækt björgunlið sent af stað

„Við fórum á tveimur bílum að leita strax og þyrla Landhelgisgæslunnar flaug meðfram vegum og einnig inni á Patreksfirði,“ segir Sigurður Árni og bætir við að allt tiltækt lið björgunarsveita á Vestfjörðum hafi verið kallað til leitarinnar.

Bíllinn fannst á Kollafjarðarheiði

Þegar sást í kyrrstæðan bíl á Kollafjarðarheiði um níuleytið í gærkvöldi kom í ljós að þar var fólkið fast og orðið kalt og illa til reika. Rúða í bílnum var brotin svo mikill kuldi var í bílnum þótt fólkið væri nokkuð vel búið.  

Sigurður segir að strax hafi verið farið með fólkið inn á Hólmavík þar sem læknir leit á þau og þau fengu að borða, en þau voru með litlar vistir í bílnum og því orðin banhungruð. Bíllinn var skilinn eftir á heiðinni.

„Við finnum alltaf bílana“

Lélegt símasamband er á þessum slóðum og vegurinn er svokallaður S vegur, eða sumarslóði sem er bara notaður yfir hásumarið. Á leið sinni vestur hafði fólkið farið eftir leiðvísi Google maps og því fór sem fór.

Þessi ferð verður örugglega lengi höfð í minnum því þau sátu föst í bílnum í 50 klukkustundir, segir Sigurður. „Það var samt það eina rétta í stöðunni, að fara ekki af stað,“ segir hann. „Það er erfitt að finna fólk á gangi, en við finnum alltaf bílana.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert