„Þú nærð engum lesskilning ef þú nærð ekki sjálfvirkni í lestrinum“

 „Það hefur alveg borið á því að umræðan sé einfölduð um lestrarmat á samfélagsmiðlum  þegar maður skoðar svör og færslur fólks í kjölfar færslu Ilmar Kristjánsdóttur leikkonu á Facebook um leshraðapróf og þessu stillt upp eins og annað hvort eigi að mæla lesfimi eða lesskilning,“ segir Sveinn Hólmar Guðmundsson umsjónarkennari á yngsta stigi sem er á lokametrunum í meistaranámi í læsi og lestrarkennslu. Hann birti langa færslu á Facebook í gær vegna málsins sem hægt er að lesa hér.

Án góðs flæðis er engin orka eftir fyrir innihaldið

„Þessi lesfimipróf hafa ákveðið forspárgildi gagnvart lesskilning. Ef sjálfvirknin sé komin á góðan stað og umskráning á gott ról þá eru meiri líkur á því að lesandinn nái að einbeita sér að innihaldi textans. En ef lesturinn er mikið höktandi og verið er að stoppa við hvert orð til að reyna að komast í gegnum hljóðin og orðið þá vill öll orkan fara í það að umskrá, eða hljóða sig í gegnum orðin og þá er engin orka eftir í að skilja. Við sjáum þetta til dæmis mjög vel ef við erum með barn sem er að lesa of þungan texta og nær þá ekki þessari sjálfvirkni. Þessi lesfimipróf eru fyrst og fremst að mæla hvort að þessi sjálfvirkni sé komin og hvort það barnið hafi náð ákveðnu flæði í lestrinum.“

Sveinn Hólmar Guðmundsson er umsjónarkennari á yngsta stigi og er …
Sveinn Hólmar Guðmundsson er umsjónarkennari á yngsta stigi og er á lokametrunum í meistaranámi í læsi og lestrarkennslu. Aðsend

Sveinn segir að markmiðið sé alls ekki að geta þulið upp texta á einhverjum ofurhraða, heldur að nemandinn get lesið nokkuð vel og þurfi ekki að stoppa mikið við orð.

Skýrari upplýsingar milli skóla og foreldra

„En það sem er samt athyglisvert og það sem Ilmur er að benda á í sinni færslu er framsetningin á þeim upplýsingum sem hún fær frá einhverjum skóla,“ segir hann með þeim fyrirvara að því geti verið mismunandi háttað eftir skólum.

„Ilmur bendir á að hún fær þarna einhverjar upplýsingar á blaði um það hversu hratt barnið nái að lesa án þess að nokkrar útskýringar fylgi þar með, ef ég skil þessa færslu rétt,” segir Sveinn Hólmar og segir ekkert gagn vera að einhverjum tölum á blaði, orðafjöldi á mínútu segja foreldrum barnsins aðeins hluta af heildinni.

„En ef kennarinn hefur þessar tölur hjá sér og útskýrir fyrir foreldrum að það vanti kannski upp á flæði í lesturinn, þá er það allt annað mál. Svo má ekki gleyma að þetta er viðmið sem við notum til að fá upplýsingar um hvort ákveðið flæði sé komið í lesturinn eða ekki. Þá er svo gott að geta gripið inn og aðstoðað nemandann ef þar vantar eitthvað upp á.“

Sveinn Hólmar bendir líka á að það sé ekki eins og börn lesi bara fyrir kennara í nokkur skipti á ári þegar lesfimin er mæld. „Börn eru að öllu jöfnu að lesa fyrir kennarann sinn á hverjum degi í skólanum, svo kennarinn hefur þar alltaf tækifæri til að skoða og meta og styðja við barnið í lestrinum.  Þannig þessi próf eru bara eitt lítið mælitæki af mörgum sem kennarar hafa í sinni verkfærakistu.“

Tækifæri til að gera betur

Hann segir líka mjög áhugavert að heyra foreldra lýsa yfir kvíða barna yfir að fara í lesfimipróf. „Þarna liggja klárlega tækifæri fyrir skólana að kynna þetta betur, því það er ekkert eðlilegt að barn sé stressað yfir að lesa eitthvað blað í tvær mínútur. Barnið les á hverjum degi í skólanum. Maður spyr sig þá hvernig svona kannanir séu kynntar fyrir börnunum. Þarna er greinilega hægt að gera betur.”

Hann segir að einnig að það séu líka lögð reglulega fyrir lesskilningspróf  eins og Orðarún þannig að það er alltaf verið að vinna með alla færniþætti. „En þú nærð engum lesskilning ef þú nærð ekki sjálfvirkni í lestrinum.“

Reuters

Ert í verra formi á haustin ef þú hefur ekki æft

Sveinn Hólmar bendir á að gríðarlegt úrval sé af góðum bókum fyrir börn og bókasöfn haldi oft kynningar þar sem farið er yfir úrvalið. Lestur, sé eins og öll færni spurning um ástundun og þar skiptir góð samvinna foreldra og skóla miklu máli, og honum sýnist á öllu að það sem hafi misfarist í þessu máli sem Ilmur reifaði á Facebook í gær, séu öll tengd því að samskipti og upplýsingaflæði hafi ekki verið eins og það ætti að vera.

„En svo vil ég líka nefna eitt sem Ilmur benti svo réttilega á í útvarpinu í gær, og það var að barnið hefði komið verr út í lesfimimati um haustið heldur en vorið á undan. Það vitum við sem kennum lestur að er oft á tíðum raunin. Þetta er bara eins og að vera í líkamsrækt alla daga og hætta svo öllum æfingum allt sumarið. Þá má búast við að líkamsformið sé aðeins verra rétt í byrjun hausts áður en rútínan er komin á fullt.“

Barnið þarf að vera í fyrirrúmi

„Það er bagalegt að barnið upplifi sig sem tapara því það kom verr út í lesfimikönnun að hausti en það gerði um vorið fyrir sumarfríið og má hreinlega ekki gerast, barnið á aldrei að upplifa sig sem tapara! Hér verða kennarar og skólarnir að útskýra vel hvernig niðurstöðurnar að hausti geta oft á tíðum verið aðeins lægri en þær niðurstöður sem barnið fékk um vorið. Þetta er bara eins og að vera í lík­ams­rækt alla daga og hætta svo öll­um æf­ing­um allt sum­arið. Þá má bú­ast við að lík­ams­formið sé aðeins verra rétt í byrj­un hausts áður en rútín­an er kom­in á fullt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert