Tólf ára reyndi sjálfsvíg í kjölfar grófs eineltis

Stúlkan hefur ítrekað fengið andstyggileg skilaboð þar sem henni hefur …
Stúlkan hefur ítrekað fengið andstyggileg skilaboð þar sem henni hefur m.a. verið hótað ofbeldi og hún hvött til þess að taka eigið líf. mbl.is/Árni Sæberg

Tólf ára stúlka sem hefur mátt þola viðurstyggilegt einelti af hendi skólasystkina og fleiri barna liggur nú á spítala eftir að hafa gert tilraun til að fremja sjálfsvíg. 

Fleiri en eitt myndskeið hafa verið birt sem sýna þegar ráðist er á stúlkuna þar sem hún liggur á gólfinu eða jörðu á meðan önnur börn sparka í hana eða kýla.

Þá hefur hún ítrekað fengið andstyggileg skilaboð þar sem henni hefur m.a. verið hótað ofbeldi og hún hvött til þess að fremja sjálfsvíg og því fagnað þegar hún segist hafa reynt það.

Sædís Hrönn Samúelsdóttir, móðir hennar, ræddi um eineltið í Bítinu á Bylgjunni í morgun. 

Yfir 30 börn tóku þátt

Sædís Hrönn segir eineltið hafa verið slæmt í rúmt ár og að um 30 börn hafi tekið þátt í því. Skólayfirvöld hafi lítið hjálpað en að lögreglan skoði nú málið. Þá séu barnaverndaryfirvöld einnig með málið á sínu borði.

„Hún lítur þetta bara mjög alvarlegum augum og ætlaði að gera það sem hún gæti gert,“ segir Sædís í viðtalinu um aðkomu lögreglu að þessu máli.

Hefur ekki mætt í skólann

Stúlkan, sem er nemandi í Hraunvallaskóla í Hafnarfirði, hefur ekki mætt í skólann í hálfan mánuð vegna eineltisins. Sædís segir það hafa verið rætt að námsráðgjafi hitti hana einu sinni á dag og kennari einu sinni í viku. 

Sædís kveðst hálfdofin yfir þessu öllu og upplifir vonleysi vegna ástandsins.

Ef þú upplifir vanlíðan eða sjálfsvíghugsanir eða hefur áhyggjur af einhverjum í kringum þig getur þú leitað til Hjálparsíma Rauða krossins 1717 (opið allan sólarhringinn), Píeta samtakanna í síma 552 2218 eða bráðamóttöku geðsviðs Landspítalans í síma 543 4050.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert