Sýni vanþekkingu á sögu málsins

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það kemur mjög spánskt fyrir sjónir, þegar þetta margra ára gamla og uppsafnaða vandamál er ávarpað í fyrsta skipti í langan tíma, að menn komi, sem hafi ekkert til umræðunnar lagt hingað til, og spyrja: hvers vegna gerðuð þið þetta ekki fyrr?“

Þetta segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í samtali við mbl.is, en Þorbjörg Sigríður Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, hefur gagnrýnt viðbragðstíma fjármálaráðherra, í tengslum við aðgerðir vegna ÍL-sjóðs. 

Byggir Þorbjörg á því að Bjarni hafi gegnt embætti fjármálaráðherra frá árinu 2013, þegar fram var lögð skýrsla um slæmar framtíðarhorfur Íbúðalánasjóðs. Ráðherrann hafi því haft tæpan áratug til að draga úr tjóni almennings. 

„Mér finnst þetta úr lausu lofti gripið og sýna vanþekkingu á sögu þessa máls,“ segir Bjarni. Hann bendir á að Íbúðalánasjóður hafi alla tíð heyrt undir félagsmálaráðuneytið og því sé alrangt að hann hafi haft málið á sínu borði í áratug.

Þá hafi félagsmálaráðuneytið jafnvel verið á forræði ráðherra Viðreisnar á tímabili, nánar tiltekið árið 2017 þegar Þorsteinn Víglundsson gegndi embætti félagsmálaráðherra. 

„Förum að gera eitthvað í þessu“

„Við samþykktum lög á Alþingi 2019, þar sem við gerðum aðskilnað milli áframhaldandi starfsemi Íbúðalánasjóðs, sem er nú á borði Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, og skyldum eftir gömlu Íbúðalánasjóðsbréfin í því sem við köllum ÍL-sjóð.“

Frá því að ÍL-sjóður var stofnaður hafa málefni hans verið hjá fjármálaráðuneytinu, þ.e. frá árinu 2020 en ekki frá árinu 2013. 

„Við höfum haldið utan um og verið að greina vandamálið. Nú er ég að leggja til að við förum að gera eitthvað í þessu.“

Bjarni kveðst ekki geta skilið gagnrýni Þorbjargar betur en svo, að hún taki undir með honum að leiðin sem hann hafi mælt fyrir í þeim efnum sé bæði raunhæf og skynsamleg. 

Bera sjálfir ábyrgð á spám um framtíðina

Þá gagnrýnir Þorbjörg að þar sem lánadrottnar LÍ-sjóðs séu að stærstum hluta lífeyrissjóðirnir, og þannig almenningur í landinu, sé villandi að tala um sparnað, enda sé um að ræða gríðarlegt fjártjón. 

Davíð Rúdolfsson, for­stöðumaður eign­a­stýr­ing­ar Gild­is, eins stærsta líf­eyr­is­sjóðs lands­ins, tók í sama streng hvað þetta varðar. Hann telur að með því að þrýsta á samningaviðræður við kröfuhafa sjóðsins og annars setja sjóðinn í slitameðerð, sé verið að ganga í sparnað almennings. 

„Við getum ekki borið ábyrgð á því hvernig menn verðmeta kröfur sínar. Lífeyrissjóðir eða aðrir, verða sjálfir að bera ábyrgð á því,“ segir Bjarni. 

Menn hafi búist við því að ríkið greiddi ufram skyldu

„Það sem ég er að reyna að vekja athygli á hérna, og hefði átt að vera öllum ljóst, er að ríkið er ekki í sjálfskuldarábyrgð fyrir ÍL-sjóð heldur í einfaldri ábyrgð. 

Mér sýnist menn hafa gengið út frá því að ríkið kæmi með, án skyldu, hundruð milljarða, til þess að halda þessum útgáfum lifandi út líftíma þeirra. Mér finnst það aftur á móti óverjandi.“

Bjarni segir menn sjálfa þurfa að bera ábyrgð á því sem þeir hafi gefið sér um framtíðina. Ríkið muni koma til með að borga allt sem það hafi lofað að borga. 

„Það verða allar kröfur greiddar þegar uppi verður staðið. Á þessu stigi málsins erum við að kalla eftir samtali við kröfuhafana og sjá hvert það leiðir okkur. Svo verður Alþingi á endanum að taka afstöðu til þeirra leiða sem koma til greina.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert