„Dauðinn verður fýsilegur kostur“

Frímann Emil Ingimundarson getur ekki séð um sig sjálfur lengur …
Frímann Emil Ingimundarson getur ekki séð um sig sjálfur lengur þótt hann beri sig vel eins og Lýður heitinn, bróðir þeirra Matthíasar. Hann býr í félagslegri íbúð í Reykjavík og fær aðstoð þar en betur má ef duga skal segir Matthías bróðir hans sem berst fyrir því að Frímann fái pláss á hjúkrunarheimili. Ljósmynd/Matthías Ægisson

„Þar til fyrir nokkrum vikum tók Frímann aldrei í mál að fara inn á hjúkrunarheimili,“ segir Matthías Ægisson í samtali við mbl.is. Til umfjöllunar er pistill hans á Facebook um bróðurinn Frímann og hefst erindið með svofelldum orðum:

„Ég get ekki sofið. Ástæðan er „heilsuhrausti bróðir minn,“ Frímann Emil Ingimundarson, 81 árs, og íslenska heilbrigðiskerfið. Ég er nánasti aðstandandi Frímanns og fékk hringingu frá Landspítala fyrr í dag,“ segir þar í upphafi.

Fjallar Matthías um tilraunir sínar til að koma Frímanni, sem er með ólæknandi beinkrabbamein á lokastigi og fær tíð flogaköst, inn á hjúkrunarheimili, en þar hefur hann átt við ramman reip að draga.

Mölbraut öxlina í flogakasti

„Nú er hann tilbúinn að fara inn á hjúkrunarheimili því hann er orðinn svo hræddur við þessi flogaköst, hann getur ekki séð um sig sjálfur lengur,“ segir Matthías frá en Frímann býr í félagslegri íbúð og fær þar aðstoð hjúkrunarfræðinga með reglulegu millibili en er einn þess á milli.

„Fyrir nokkrum árum slasaðist hann mjög illa og mölbraut á sér öxlina,“ segir Matthías. Sé Frímann standandi þegar flogin sækja að honum dettur hann og hefur hlotið ýmsa áverka af. Nýlega hafi hann til dæmis dottið mjög illa á andlitið. „Ég hringdi í Heilsugæslu Vesturbæjar fyrir tveimur vikum og þá gat hann ekki fengið símatíma fyrr en viku seinna og ég spurði hann á miðvikudeginum hvort það væri ekki í lagi að ég hringdi á fimmtudagsmorgninum og væri hjá honum og hann gæti þá talað við lækninn,“ segir hann frá.

Frímann hafi hins vegar verið of veikburða á nefndum tíma til að ræða við lækninn svo Matthías hafi sjálfur gert það. „Og þá fyrst kemur í ljós að fylla þarf út færni- og heilsumat [vegna umsóknar um innlögn á hjúkrunarheimili] og læknirinn tók mjög vel í það, hún ætlaði að finna gögn og fara í það mál en bætti við að við þyrftum sjálfir að fylla út skýrslu um færnimat,“ heldur Matthías áfram.

Heilsuhraustur?

Þegar beiðnin var lögð fyrir læknateymi fyrir síðustu helgi kom það upp úr kafinu að Frímann var talinn of heilsuhraustur til að eiga möguleika á hjúkrunarheimili og lýsir Matthías símtali með þeim úrskurði í skrifum sínum á Facebook:

„„Frímann er svo heilsuhraustur að hann myndi aldrei uppfylla skilyrði um innlögn á hjúkrunarheimili,“ sagði hjúkrunarfræðingurinn sem hringdi í mig fyrr í dag. Þessi orð nístu hjarta mitt.

„Heilsuhraustur? Þó að hann sé með ólæknandi beinkrabba á lokastigi?“ spurði ég.

„Já,“ svaraði hjúkrunarfræðingurinn. „Hann myndi aldrei standast hæfnismat.““

Telur Matthías úrskurðinn því sem næst óskiljanlegan enda fjölgi flogaköstum bróður hans jafnt og þétt. „Þetta er farið að gerast svo oft, fyrir viku var hann fluttur með sjúkrabíl og þar á undan gerðist þetta fyrir fjórum vikum, þetta er bara þessi hringur alltaf,“ segir Matthías og bætir því við að Frímann sé nú við það að gefast upp á þrautagöngunni.

„Hann tók skýrt fram við lækna áður en hann fór af deildinni síðast að hann vildi ekki láta lífga sig við aftur. Hann er bara búinn að gefast upp. Ég hringdi í morgun [í gær, föstudag] upp á Landspítala til að reyna að komast að því hversu oft hann hefði verið endurlífgaður á síðustu árum, hann gæti þess vegna farið eftir viku.“

Nefndarfundur til að flytja mann yfir götu

Matthías segist eiga erfitt með að átta sig á því hvernig kerfið starfi. „Ég skil ekki hvers vegna gamla fólkið þarf að útfylla þetta færnimat þegar hjúkrunarfólkið er með allar upplýsingar og mér finnst það líka óskiljanlegt að þessi hjúkrunarfræðingur segi mér að hann eigi ekki möguleika á að komast á hjúkrunarheimili vegna þess að hann sé svo flottur og heilbrigður. Frímann hefur alltaf borið sig mjög vel, alveg eins og Lýður bróðir okkar sem fór fyrir nokkrum árum, en það hlýtur að segja sitt að hann er langt leiddur af beinkrabba og fær síaukin flogaköst sem eru beinlínis lífshættuleg,“ heldur Matthías áfram, áhyggjufullur yfir velferð bróður síns.

Bræðurnir Matthías, vinstra megin, og séra Sigurður Ægisson vitja leiðis …
Bræðurnir Matthías, vinstra megin, og séra Sigurður Ægisson vitja leiðis bróðurins Jóns Ægissonar í Kotstrandarkirkjugarði. Jón lést úr krabbameini en áður þurfti nefnd að koma saman til að úrskurða um hvort flytja mætti hann milli húsa í Hveragerði. Matthías telur kerfið þunglamalegt og eldra fólki erfiður ljár í þúfu. Ljósmynd/Aðsend

„Hann er að verða 82 ára og er með lífsógnandi sjúkdóma og ég skil ekki hvers vegna mér var ekki boðið á þennan fund þessa læknateymis sem tekur ákvarðanir um innlagnir á hjúkrunarheimili. Ég er líka hugsi yfir öllu hinu gamla fólkinu sem á sér engan málsvara og veit ekkert hvað færnimat er, hefur kannski ekki aðgang að tölvu og svo framvegis. Ég skil ekki hvers vegna þetta er gert svona erfitt í stað þess að sjúkrahúsin segi við fólk „þetta er þinn réttur“ og upplýsi það,“ segir Matthías og nefnir Jón heitinn Ægisson bróður sinn sem greindist með krabbamein og dvaldi á hjúkrunarheimilinu Ási í Hveragerði.

„Hann greindist með krabbamein og það gleymdist að láta okkur nánustu aðstandendur vita af því. Og af því að hann var með lögheimili fyrir norðan þurfti það að fara fyrir nefnd sem kom saman tvisvar í mánuði hvort það mætti færa hann af deildinni, sem hann var á og deildi með nokkrum sjúklingum, yfir á hjúkrunarheimili hinum megin við götuna. Svo þegar samþykki loksins fékkst lifði hann í nokkra daga á hjúkrunarheimilinu, hann var orðinn það veikur,“ segir Matthías af verklagsreglum.

Stútfullt af hæfu starfsfólki, en...

Hann segir þó vera að rofa til nú, hringt hafi verið í Frímann og honum tjáð að verið væri að kanna hvort hann gæti hugsanlega fengið hvíldarinnlögn á hjúkrunarheimili í mánuð. „Þannig að þessi umræða sem er í gangi er kannski eitthvað að hræra upp í þessu,“ segir Matthías og telur mikilvægt, með hagsmuni eldra fólks almennt að leiðarljósi, að vekja athygli á stöðunni.

Nú bíði þeirra bræðra að setjast yfir útfyllingu færni- og heilsumats fyrir Frímann og vonar Matthías það besta fyrir hönd bróðurins. Hann vill hins vegar sjá úrbætur í heilbrigðiskerfi sem hann telur hreinan frumskóg.

Frímann á þriðja ári fyrir miðja öldina sem leið. Tvisvar …
Frímann á þriðja ári fyrir miðja öldina sem leið. Tvisvar verður gamall maður barn segir máltækið og er nú orðið á brattann að sækja fyrir Frímann að sjá um sig sjálfur í félagslegri íbúð í Reykjavík. Ljósmynd/Aðsend

„Íslenska heilbrigðiskerfið er eins og Frímann bróðir minn komið að fótum fram. Það stendur ekki undir nafni. Þetta er óheilbrigt kerfi og ópersónulegt. Það er stútfullt af hæfu starfsfólki sem sinnir fallegasta starfi í heimi, umönnun og hjúkrun, en ráðamenn eru búnir að svelta kerfið og eyðileggja og það er ekkert pláss né fjármagn til fyrir gamla fólkið. Það er svo týnt að jafnvel dauðinn verður fýsilegur kostur,“ segir Matthías Ægisson að lokum sem berst fyrir velferð bróður síns á ævikvöldinu.

Hér má lesa skrif Matthíasar á Facebook í heild sinni:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert