Fyrst skal sækja um bætur í meðferðarlandinu

Liðskiptaaðgerð á hné í fullum gangi.
Liðskiptaaðgerð á hné í fullum gangi. Ljósmynd/Gunnar Svanberg Skúlason

Ef íslenskur ríkisborgari fer utan í aðgerð sem heppnast ekki vegna mistaka þá skal fyrst leita réttar síns í viðkomandi landi ef þar eru sjúklingatryggingar líkt og á Íslandi. Þetta kemur fram í svari Berglindar Ýr Karlsdóttur deildarstjóri réttindasviðs hjá Sjúkratryggingum Íslands í svari til mbl.is.

Viðtal mbl.is við Kjartan Halldórs Antonsson á dögunum vakti talsverða athygli en þar fór hann yfir mál eiginkonu sinnar. Hún hafði farið í liðaskiptaaðgerð í Danmörku árið 2019 en þar áttu sér stað mistök sem hafa haft mikil áhrif á lífsgæði hennar. 

Við feng­um svar frá Sjúkra­trygg­ing­um Íslands þar sem seg­ir að ís­lenska ríkið geti ekki borið ábyrgð á aðgerðum sem fram­kvæmd­ar eru er­lend­is. Þeir borga ferðina, uppi­hald og allt sam­an og mér er sagt af lög­fróðum mönn­um að það stand­ist enga skoðun að ís­lenska ríkið geti fríað sig ábyrgð,“ sagði Kjartan varðandi tryggingahlið málsins. 

Mbl.is spurði Berglindi hvort Sjúkratryggingum Íslands sé ekki heimilt að greiða kostnaðinn sem hlýst af mistökum í aðgerðum erlendis. Berglind bendir á að sjúklingurinn eigi sama rétt og aðrir til að fá læknisþjónustu hér heima eins og ef framkvæma þarf aðra aðgerð. 

„Ef mistök eru gerð í meðhöndlun erlendis þarf að líta til a.m.k. tveggja atriða. Ef óskað er eftir þjónustu á Íslandi, t.d. enduraðgerð á Íslandi, lyfjakaup o.fl., þá á einstaklingurinn einfaldlega sama rétt og aðrir sem eru sjúkratryggðir á Íslandi. Almenn greiðsluþátttaka er í læknisþjónustu og lyfjakaupum, sjúkraþjálfun o.fl. Aðgerðir á borð við liðskiptaaðgerðir eru framkvæmdar á sjúkrahúsum á Íslandi með greiðsluþátttöku ríkisins, en vissulega getur verið bið eftir meðferð.“

Ef sjúklingurinn vill sækja bætur í krafti Sjúklingatryggingar þá er hún til staðar á Norðurlöndunum en er sjaldgæf annars staðar. Lögum samkvæmt ber sjúklingi að sækja fyrst rétt sinn í landi þar sem aðgerðin fór fram en þarf ekki að sýna fram á læknamistök fyrir dómstólum.   

„Ef um er að ræða tímabundið eða varanlegt líkamstjón, eða fjárútlát vegna meðferðar í kjölfar mistaka, þá þarf að horfa til sjúklingatryggingar (á Íslandi lög nr. 111/2000). Sjúklingatrygging gildir á Íslandi og á Norðurlöndunum, en óvíða annars staðar. Í henni felst réttur sjúklinga til þess að fara fram á bætur vegna líkamstjóns í kjölfar læknismeðferðar, án þess að þurfa að leita til dómstóla eða sýna fram á mistök í ströngum skilningi.“

Höfuðstöðvar Sjúkratrygginga Íslands í Reykjavík.
Höfuðstöðvar Sjúkratrygginga Íslands í Reykjavík.

Berglind tekur fram að réttur vegna sjúklingatryggingar sé yfirleitt betri á hinum Norðurlöndunum þar sem ekki sé hámark á bótum eins og á Íslandi.  

„Hægt er að sækja bætur vegna sjúklingatryggingar vegna meðferðar á Íslandi, og einnig vegna samþykktrar meðferðar erlendis, eftir að búið er að tæma rétt til sjúklingatryggingar í meðferðarlandinu.

Dæmi: Sjúkratryggingar senda sjúkling til Svíþjóðar í aðgerð sem er ekki hægt að framkvæma á Íslandi og mistök verða. Sjúklingurinn skal fyrst leita til sænsku sjúklingatryggingarinnar og tæma rétt sinn þar. Eftir það má skoða sjúklingatryggingu á Íslandi og greiða viðbótarbætur, ef að réttur á Íslandi er sterkari. Tekið skal fram að réttur vegna sjúklingatryggingar er yfirleitt betri á  hinum Norðurlöndunum, þar sem að á Íslandi er ákveðið hámark á bótunum,“ segir Berglind sem getur vitaskuld ekki tjáð sig um afgreiðslu einstakra mála en fer yfir regluverkið sem Sjúkratryggingum ber að vinna eftir.“

SÍ getur leiðbeint í umsóknarferlinu

Sjúkratryggingar geta leiðbeint fólki ef sækja þarf um bætur í því landi þar sem aðgerðin var framkvæmd. 

„Þegar kemur að meðferð erlendis þar sem biðtími á Íslandi er óásættanlega langur, þá er samkvæmt lögum ekki heimilt að bæta líkamstjón úr sjúklingatryggingu á Íslandi. Ef leitað hefur verið til Norðurlanda, heyrir málið undir sjúklingatryggingu í því landi. Ef sótt er um til Sjúkratrygginga þá veita SÍ leiðbeiningar um þetta og hvert á að leita.“

Innleiðing á löggjöf EES 

Fyrir þá sem vilja kynna sér regluverkið örlítið nánar þá nefnir Berglind þrjú atriði varðandi aðgerðir erlendis hjá einstaklingum sem eru sjúkratryggðir á Íslandi. 

„Meðferðir einstaklinga sem eru sjúkratryggðir á Íslandi sem fara fram erlendis skiptast gróflega í þrennt.

-Ef um er að ræða brýna meðferð sem er ekki hægt að veita á Íslandi geta Sjúkratryggingar tekið ákvörðun um að senda einstakling í meðferð erlendis á kostnað íslenska ríkisins. Skv. lögum er nauðsynlegt að SÍ samþykki meðferð fyrirfram.

-Þessu til viðbótar eru Evrópureglur (innleiðing á löggjöf EES réttar) sem heimila einstaklingum að sækja meðferð innan EES á kostnað íslenska ríkisins ef biðtími á Íslandi eftir nauðsynlegri meðferð er óásættanlega langur. Þá eru einnig greiddar ferðir og uppihaldsdagpeningar. Reglur gera ráð fyrir að heimild sé fengin áður en meðferð fer fram (Sjá íslenska reglugerð nr. 484/2016, 9. gr. sbr. einnig 4. mgr. 11. gr.).

-Reglur EES réttar heimila einnig greiðsluþátttöku í meðferð innan EES ef einstaklingar svo kjósa, en þá er ekki um að ræða neina greiðslu vegna ferða og uppihalds. Reglur gera ráð fyrir að heimild sé fengin áður en meðferð fer fram, nema um sé að ræða meðferð sem ekki krefst innlagnar á sjúkrahús (Sjá íslenska reglugerð nr. 484/2016, 9. gr. sbr. einnig 4. mgr. 11. gr.).“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert