Passaði að vera ekki of stelpuleg

Steingerður Lóa og Auður eru hamingjusamar í dag eftir að …
Steingerður Lóa og Auður eru hamingjusamar í dag eftir að hafa komið út, Steingerður sem trans kona og Auður sem hinsegin. mbl.is/Ásdís

Steingerður Lóa Gunnarsdóttir var alin upp karlkyns en bældi niður tilfinningar sínar lengi vel. Hún kom loks út opinberlega í fyrra og er sátt í dag. Hún lifir góðu lífi með konu sinni Auði sem kom einnig út sem hinsegin. 

Hvenær vissir þú að þú vildir lifa sem kona?

„Ég vissi það ekki almennilega lengi vel. Það tók mig langan tíma að koma út fyrir sjálfri mér. Þegar ég var lítil eða unglingur voru þessi orð ekki til og umræðan ekki mjög opin. Ég man þegar ég var fjögurra ára, þá langaði mig að fara í kjól en skammaðist mín of mikið til að gera það,“ segir hún og bætir við að þegar hún var lítil hafi hún haldið að allir strákar vildu vera stelpur.

Líkami manns er alltaf manns eigin

„Ég var alla ævi að passa mig að vera ekki of stelpuleg því þá myndi einhver komast að leyndarmálinu. Ég forðaðist því að gera „stelpulega“ hluti,“ segir hún.

„En ég var svo bókstafleg og hugsaði að ég væri bara strákur sem langaði að verða stelpa. Einu sögurnar sem maður sá í fjölmiðlum voru um fólk sem var handvisst um að það hefði fæðst í röngum líkama. Það var ekki það sem ég tengdi við og fannst ég ekki tilheyra þeim hópi. En svo var það 2013 að ég fór að lesa og heyra um öðruvísi reynslu trans kvenna og sá að þeirra reynsla var meira eins og mín. Þetta er ekki endilega þannig að maður fæðist í röngum líkama; líkami manns er alltaf manns eigin. En það er misræmi í heilanum og líkamanum. Þetta getur verið spurning um að heilinn vill mögulega önnur hormón en líkaminn býr til,“ segir Steingerður Lóa.

„Það fylgir þessu mikil vanlíðan og hún ­jókst eftir því sem ég bældi þetta meira,“ segir hún og segir netið hafa breytt miklu því þar mynduðust hópar sem hægt var að tilheyra; hópar fólks sem leið eins og henni.

Ítarlegt viðtal er við Steingerði Lóu og Auði í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert