Fordæma brottvísanirnar til Grikklands

Frá lögregluaðgerðum í síðustu viku.
Frá lögregluaðgerðum í síðustu viku. Ljósmynd/Aðsend

Stefnu- og málefnanefnd Pírata fordæma brottvísanir hælisleitenda til Grikklands þann 2. nóvember. Þetta kemur fram í tilkynningu frá nefndinni.

„Við fordæmum ómannúðlega meðferð við handtökur þar sem fólk var flutt úr landi án þess að fá tækifæri til að taka saman eigur sínar og var þannig sent nær allslaust til Grikklands, mögulega án lyfja, stoðtækja og annarra nauðsynja,“ segir í tilkynningunni. 

Þar segir að vísa fólki úr landi með þeim hætti sé óásættanlegt. „Að gera það þegar þau bíða enn niðurstöðu í málum sínum er óskiljanlegt og sýnir mikið virðingarleysi fyrir réttindum þeirra.

Að hindra fjölmiðla í því að fjalla um þessa atburði sýnir mikið hugleysi og það að þessar aðgerðir þoli ekki að koma fyrir augu almennings sýnir að þær eru ekki réttlætanlegar.“

Enn fremur segir í tilkynningunni að það að málaflokkurinn sé í höndum Sjálfstæðisflokksins firri aðra ráðherra og flokka í ríkisstjórn engri ábyrgð, „sem með aðgerðarleysi sínu taka sömu afstöðu og dómsmálaráðherra“.

Undir yfirlýsinguna ritar Indriði Ingi Stefánsson, formaður Stefnu- og málefnanefndar Pírata og varaþingmaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert