Skattaafsláttur rafbíla drífur stutt

Tómas Kristjánsson, formaður Rafbílasamband Íslands, segir að stjórnvöld þurfi að …
Tómas Kristjánsson, formaður Rafbílasamband Íslands, segir að stjórnvöld þurfi að mynda sér stefnu í málefnum rafbíla. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórnvöld eru skammsýn að ætla einungis að veita afslátt á virðisaukaskatti á rafbílum út árið 2023 óháð fjölda bíla sem ívilnunarinnar njóta, sem hingað til hef­ur miðast við 20.000 bíla.

Þetta er mat Tómasar Kristjánssonar, formanns Rafbílasambands Íslands. Stofnanir, sveitarfélög sem byggja upp innviði sína og fyrirtæki, til dæmis bílaleigur, þurfi betri fyrirsjáanleika. 

„Þetta eru jákvæðar fréttir. En það er löngu vitað að miðað við hversu mikið magn af rafbílum flæðir hingað til landsins, að þessi 20 þúsund bíla kvóti yrði fylltur um það bil næsta vor,“ segir hann. Honum sýnist með frumvarpinu frekar hugsað til bílaleiga og þungaflutninga heldur en annars.

„Bæði rekstur bílaleiga og svo rekstur þungaflutninga krefst áætlana. Það er ofboðslega erfitt að standa undir því að fara að byggja upp innviði fyrir rafbíla þegar skammsýnin hjá stjórnvöldum er svona mikil,“ segir Tómas. 

Þurfi langtímastefnu til ársins 2030

Rafbílasambandið hefur alltaf kallað eftir langtímastefnu til 2030 hvað varðar ívilnanir. Síðasr hafi breytingin gengið í gegn fyrr á árinu en þá hafi Rafbílasambandið kallað eftir því að hámarkið yrði hækkað í 30.000 bíla en 20.000 bílar hafi verið niðurstaðan. 

„Hvort sem við erum að tala um Orkustofnun eða aðrar ríkisstofnanir, einstaklinga eða fyrirtæki sem fjárfesta í rafbílum, þá eru þetta allt aðilar sem eru úti í kuldanum á meðan stjórnvöld mynda sér ekki rafbílastefnu.“ 

Tómas segir að erfitt sé að gera sér grein fyrir hve margir rafbílar verða á götunum eftir fjögur ár. Máli skipti að veita fyrirsjáanleika þar sem fyrirtæki þurfi að gera sínar áætlanir og framtíðarplön rétt eins og sveitarfélög sem byggja upp innviði sína á landsbyggðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert