„Aldrei viljað fara þessa hefðbundnu leið“

Sindri Leví Ingason og Amelija Prizg­inaite.
Sindri Leví Ingason og Amelija Prizg­inaite. Ljósmynd/Aðsend

Það eru ekki margir sem reka sitt eigið fyrirtæki 22 ára gamlir og eru orðnir reynsluboltar eftir aðeins tvö ár í viðskiptum. Sindri Leví Ingason og Amelija Prizg­inaite eru ungt par sem kynntust í menntaskóla og ákváðu á lokaári skólans að hrinda í framkvæmd hugmynd sem Sindri hafði gengið með í maganum lengi – að búa til borðspil.

Svo hugmyndin fengi vængi urðu þau að rannsaka allt ferlið sjálf, fá aðstoð mömmu við teikningarnar, auglýsa til að fá fylgjendur á samfélagsmiðlum svo hægt væri að fara með borðspilið í Kickstarter til að reyna að koma því í framleiðslu.

„Við söfnuðum fyrir spilinu okkar Reckless Sloths á Kickstarter og það söfnuðust fjórar milljónir alls. Bara fyrstu átta tímana vorum við komin með eina og hálfa milljón, sem er nánast óþekkt í þessum bransa og ég er mjög stoltur af því. Við fengum mjög stóra spilaframleiðendur sem styrktu okkur eins og Exploding Kittens og fleiri styrktaraðila út um allan heim,“ segir Sindri og bætir við að það hljómi kannski einfalt, en mikil vinna hafi verið unnin áður en þau hófu söfnunina. Núna eru þau komin af stað með annað spil Reckless Sloths: Madness Unleashed og eru komin af stað með Kickstarter-söfnun svo þau geti komið því í framleiðslu.

 Alltaf haft mikinn sköpunarkraft

En hvernig hófst þessi áhugi á borðspilum?

„Ég hef aldrei viljað fara þessa hefðbundnu leiðina í lífinu. Við vinnum núna eingöngu við fyrirtækið og erum að fjárfesta og vinna í líka í öðrum verkefnum. Ég hef alltaf viljað búa til eitthvað sjálfur og setja á markað. Ég hef alltaf viljað vera minn eigin herra,  ráða mér sjálfur, og gera hlutina eins og ég vil gera þá. Svo hef ég alltaf haft mikinn sköpunarkraft og þegar ég var yngri var ég alltaf að hanna eitthvað og bjó oft til mín eigin spil,“ segir Sindri.

Af hverju ekki núna?

Boltinn fór síðan að rúlla í menntaskólanum. „Þegar ég kynntist kærustunni minni Ameliju sagði ég henni frá þessum áhuga mínum og hún sagði mér að vera ekki að bíða. „Ef þú byrjar ekki núna, muntu aldrei gera það,“ svo ég ákvað að skella mér í þetta.“

Þau fóru saman að vinna að spilinu og Sindri segir að þau hafi þurft að læra mjög mikið hratt. Hvorugt þeirra var með reynslu í framleiðslu eða viðskiptum og svo áttu þau ekki mikla peninga enda framhaldsskólanemar.

Sextán tíma í tölvunni á dag

„Við fengum mömmu mína [Sylvíu Vinjars] sem er listakona til að teikna upp spilið fyrir okkur og hún er núna búin að teikna yfir 200 myndir. Svo vinn ég myndirnar áfram í tölvunni eftir að hún er búin að skissa upp á blað.“

Sindri afsannar það að það sé alslæmt að liggja í tölvunni alla daga, en eflaust skiptir þar tilgangurinn megin máli. Hann lá á netinu að læra allt um hvernig hægt væri að markaðssetja spil, reka fyrirtæki og koma spilinu í dreifingu án þess að afhenda það stórum dreifingaraðila og missa þannig stjórnina sjálfur. Síðan lagðist hann yfir hvernig hægt væri að setja af stað Kickstarter söfnun, enda voru skötuhjúin bæði í menntaskóla og áttu litla peninga.

„Þetta var það eina sem ég gerði allan daginn og var oft 16 klukkutíma á dag í marga mánuði til að afla mér allra upplýsinga um allt ferlið,“ segir hann. Sindri og Amelija enduðu með því að safna 1700 manns í Facebook hópinn okkar, fólki alls staðar að úr heiminum, og svo voru þau komin með rúmlega 2000 tölvunetföng á póstlista, en Sindri var búinn að komast að því að það þýddi ekkert að fara í Kickstarter-söfnun fyrr en það væri komið.

Fjárfestu í auglýsingum 

„Við fjárfestum alveg hellings pening í það að koma upp þessum póstlista og fólkinu í Facebook grúppuna en við fengum aðstoð við að auglýsa spilið á Instagram og Facebook. Kickstarter auglýsir ekki verkefnið fyrir þig, þannig að maður þarf eiginlega að fá allan stuðningshópinn áður en þú byrjar á verkefninu, og núna erum við með 2700 fylgjendur á Facebook hópnum.“

Hann segir að söfnunin gangi mjög vel núna á Kickstarter fyrir framleiðslu nýja spilsins, en núna þegar fjórir dagar eru eftir hafa safnast 80% af upphæðinni.

Margir hafa áhuga

Þegar Sindri er spurður um dreifingarmál og hvar hægt sé að nálgast spilin, segir hann að þau séu mest að selja á heimasíðunni www.recklesssloths.com, en þau eru með fyrirtækið sitt skráð í Bandaríkjunum af því að það er ekki hægt að vera með Kickstarter söfnun nema að hafa fyrirtækið þar.

„Við erum líka að selja spilið í Hagkaup og höfum verið að tala við A4 um að fá spilið í dreifingu á Íslandi. En við þurfum að prenta fleiri eintök og svo erum við að senda tölvupósta á fleiri dreifingaraðila úti í heimi. En akkúrat núna er Reckless Sloths bara til sölu á vefsíðunni, í Hagkaup og í nokkrum verslunum í Evrópu og Bandaríkjunum. Svo erum við líka að spá í Amazon, en það er bara svo mikið að gera við nýja spilið að við höfum ekki komist það langt ennþá. En við erum mjög heppin því það eru margir sem hafa áhuga.“

Varhugaverðir andarungar

Nýja spilið snýst líka um letidýrin. Spilið snýst um að bjarga letidýrum frá alls konar furðulegum hættum, eins og knúsi frá varhugaverðum andarunga eða vegna innkaupakörfu á fleygiferð svo eitthvað sé nefnt, en Sindri segir að mjög mikið hafi bæst við nýja spilið.

„Ég gerði myndirnar miklu betri, því ég er búinn að læra helling á að gera svona myndir í Illustrator forritinu. Svo er fullt af nýjum hlutum búið að bætast við, þannig að þetta þótt þetta sé sama hugmynd er hún allt öðruvísi útfærð. Við erum eiginlega búin að gera spilið bara bæði flottara og skemmtilegra, og það eru jafnvel svolítil áhrif frá tölvuleikjum í því líka.“

Frjáls eins og fuglinn

Það er greinilegt af því að tala við Sindra að hann er ástríðufullur fyrir verkefninu.  „Þetta er einfalt spil sem er bæði skemmtilegt fyrir krakka og líka fyrir fjölskylduna eða til að spila í næsta partíi. Myndirnar eru litríkar og höfða til krakka og svo er mikill húmor í spilinu sem fullorðna fólkið getur haft gaman af.“

Þegar ég ræddi við Sindra var hann staddur á Kýpur með Ameliju, en þau hafa verið talsvert á faraldsfæti undanfarið ár. „Við höfum verið að vinna í fyrirtækinu og nýja spilinu og líka í rafmyntum og svo er kærastan mín að skrifa bækur. Við getum í rauninni verið hvar sem er að vinna ef við erum í góðu netsambandi,“ segir hann en viðurkennir þó að netsambandið mætti vera betra á Kýpur.

Engar áhyggjur af hruni FTX

Á sama tíma og Sindri og Amelija reka fyrirtækið og hanna nýja spilið eru þau líka komin á kaf í rafmyntirnar. „Við fórum bæði í háskóla eftir framhaldsskólann, þótt við værum á fullu að vinna fyrsta spilið, en hættum eftir eitt ár, því rafmyntirnar gengu ágætlega og eins höfðum við bara einfaldlega allt of mikið að gera í fyrirtækinu.“

En er hann ekkert stressaður yfir nýlegu hruni FTX-rafmyntarisans?

„Ég sá alveg fyrir mér að þetta gæti gerst. Það er yfirleitt svona ferli í rafmyntunum og þær fara upp og niður á fjögurra ára fresti. Núna var kominn tími á að þær færu niður. En ég hef ekkert rosalega miklar áhyggjur af þessu, því þetta verður aftur komið á uppleið ekki seinna en eftir tvö ár. Bara kaupa helling núna, eða kannski eftir smátíma því kreppan og stríðið hafa áhrif líka og verðið fer líklega ennþá neðar.“

Heima um jólin

Það er víst að lífið blasir við þessu unga fólki sem hefur tekist svona vel að finna sinn farveg í lífinu. Núna er Amelija að skrifa bækur á Kýpur og er í sambandi við umboðsmann í Bandaríkjunum til að koma þeim í útgáfu og hver veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Sindri segir að þó sé eitt á hreinu og það er að þau verði heima um jólin með fjölskyldunni. „En svo getur vel verið að við förum aftur út á næsta ári.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert