„Verðum minna háð innfluttum hráefnum“

Atburðir á heimsvísu síðustu ár hafa beint kastljósinu í auknum …
Atburðir á heimsvísu síðustu ár hafa beint kastljósinu í auknum mæli að fæðuöryggi. Ljósmynd/Aðsend

„Auka þarf árvekni um fæðuöryggi á Íslandi, tryggja að við verðum minna háð innfluttum hráefnum og aðföngum og styrkja innlenda matvælaframleiðslu,“ segir í drögum að matvælastefnu sem Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra kynnti á matvælaþingi í Hörpu í morgun. 

Í drögunum segir að áhersla á hringrásarhagkerfið og sjálfbærni í framleiðslu styrki stoðir fæðuöryggis landsins. 

Þá segir að ein af framtíðasýnum Íslands fyrir árið 2040 sé að fæðuöryggi sé tryggt og komið verði á fót skipulagi sem tryggir nauðsynlegar lágmarksbirgðir matvæla í landinu á hverjum tíma, sem og aðföng til framleiðslunnar.

Tryggja matvælaöryggi með eftirliti og vöktun

„Neytendur þurfa að geta treyst því að þau matvæli sem í boði eru hér á landi, hvar sem þau eru framleidd, séu örugg og ógni ekki heilsu almennings.“

Í drögunum segir að tryggja megi matvælaöryggi með eftirliti og vöktun, „sem er lykilatriði í að sannreyna örugga og heilnæma matvælaframleiðslu“.

Þá segir að matvælaöryggi sé einnig grunnforsenda útflutnings matvæla frá Íslandi. 

„Ísland er í góðri stöðu til að vera leiðandi í matvælaframleiðslu þar sem hér er gott aðgengi að hreinu vatni og endurnýjanlegri orku og hreinleiki afurða er í sérflokki.“

Á þinginu í dag verður talsvert rætt um matvæla- og fæðuöryggi en meðal annars mun fyrr­ver­andi land­búnaðarráðherra Úkraínu flytja erindi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert