Mögulega voru jarðskjálftar orsökin

Vatn flæddi í stríðum straumum um Hvassaleitið og fór það …
Vatn flæddi í stríðum straumum um Hvassaleitið og fór það meðal annars inn í kjallara, bílskúra og bíla. mbl.is/Árni Sæberg

Tryggingafélagið VÍS hefur greitt samtals 45,6 milljónir í bætur til þeirra sem urðu fyrir tjóni þegar önnur af stofnæðum Veitna fór í sundur við Hvassaleiti í september. Þar af eru 14 milljónir vegna bifreiðatjóna, en ekki liggur enn fyrir hver heildarfjárhæðin verður þar sem enn á eftir að gera upp hluta tjónanna. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ársfjórðungsuppgjöri Orkuveitunnar sem birt var í dag.

Galli eða breytt umhverfi, m.a. vegna jarðskjálfta

Í uppgjörinu er komið inn á stærri mál sem eru í gangi hjá félaginu og meðal annars farið yfir stöðu vatnstjónsins. Segir þar að ástæður þess að lögnin gaf sig séu líklegast nokkrar og samverkandi. Segir þar að líklegast sé að orsakir fyrir rofinu séu ófullnægjandi efnisgæði í röri eða galli sem hafi komið fram í því.

Einnig sé mögulegt að breytingar í umhverfi hafi leitt til þess að lögnin rofnaði og er tiltekið að jarðhræringar sem hafa átt sér stað á Reykjanesi undanfarið gætu hafa átt þátt í að lögnin fór í sundur.

Fyrirtækið hafnar hins vegar alveg að um mistök eða vanrækslu sé að ræða. „. Það liggur hins vegar fyrir að ekki var fyrir að fara neinum mistökum eða vanrækslu af hálfu starfsfólks Veitna þannig að rof lagnarinnar verður ekki rakið til athafna eða athafnaleysis þess,“ segir í uppgjörinu.

Talsvert tjón varð vegna rofsins.
Talsvert tjón varð vegna rofsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vegna þess að ekki er um mistök eða vanrækslu að ræða nær ábyrgðartrygging Orkuveitunnar ekki utan um tjónið, en stjórnendur félagsins ákváðu hins vegar að allt tjón yrði bætt og hefur VÍS haft umsjón með tilkynningum og milligöngu um uppgjör.

Tugmilljóna kostnaður við endurnýjun lagnarinnar

Í umfjöllun Rúv í gær var greint frá því að endurnýja ætti lögnina á 700 metra kafla í vor, en kostnaður við endurnýjunina hleypur á tugum milljóna og gæti jafnvel orðið hundrað milljónir. Þá segir jafnframt að lögnin þveri Háaleitisbraut og því geti orðið nokkuð rask fyrir umferð þegar farið verður í framkvæmdirnar. Lögnin var lögð árið 1962 og er því orðin sextíu ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert