Alvarlegt umferðarslys á Vestfjörðum

Kort/Map.is

Fimm manns voru fluttir á sjúkrahús á Ísafirði í kvöld eftir alvarlegt umferðarslys á Vestfjörðum en ekkert er vitað um ástand fólksins enn sem komið er.

Mikill viðbúnaður viðbragðsaðila er á svæðinu. 

Uppfært kl. 21:20:

Samhæfingarmiðstöð almannavarna í Skógarhlíð hefur verið virkjuð vegna slyssins, sem að sögn Hjördísar Guðmundsdóttur, upplýsingafulltrúa almannavarna, varð á Hnífsdalsvegi, milli Ísafjarðar og Hnífsdals. Tvær sjúkraflutningavélar Mýflugs eru á leið frá Akureyri til Ísafjarðar til að flytja slasaða á Landspítalann í Reykjavík.

Uppfært kl. 22:59: 

Upphaflega var greint frá því að sjö manns hafi verið fluttir á sjúkrahús, en hið rétta er að fimm manns voru flutt. Þrír voru fluttir með sjúkraflugi á Landspítala, taldir alvarlega slasaðir. Um var að ræða bílslys tveggja bifreiða.

Aðstæður krefjandi

Uppfært kl. 23:59:

Lögreglan á Vestfjörðum segir frá því á facebook-síðu sinni að viðbragðsaðilar hafi nú lokið störfum. Aðstæður á vettvangi hafi verið krefjandi og viðbragðsaðilum er þökkuð góð vinna. Bifreiðunum tveimur var ekið úr sitt hvorri áttinna og skullu saman.

Sjúkrahúsið á Ísafirði.
Sjúkrahúsið á Ísafirði. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert