Náttúrustofa Austurlands leggur til að hreindýraveiðikvóti ársins 2023 verði 901 hreindýr. Drög að kvóta upp á 938 dýr voru kynnt 1. nóvember síðastliðinn og sett í opið samráð. Þar gafst öllum tækifæri til að gera rökstuddar athugasemdir við kvótatilllöguna. Samráðinu lauk 25. nóvember og þá höfðu borist fjórar athugasemdir.
Félag leiðsögumanna með hreindýraveiðum taldi að á bak við tillöguna lægju nánast engar talningar og lagði m.a. til að gefinn yrði út lágmarkskvóti á öllum svæðum sem hægt væri að bæta við, gæfu talningar í mars/apríl ástæðu til. Náttúrustofan brást við og skýrði út hvernig fjöldi hreindýra væri metinn og sagði að hreindýrin væru talin oftar og nákvæmar en aðrir dýrastofnar hérlendis.
Jóhann G. Gunnarsson, starfsmaður Umhverfisstofnunar, sem m.a. er í stöðugum samskiptum við leiðsögumenn á veiðitíma, gerði athugasemdir við kvóta á einstökum veiðisvæðum á grundvelli hugleiðinga sinna frá síðasta veiðitímabili.
Ólafur Pétursson frá Skálanesi lagði til að tarfaleyfum, m.a. á svæði 4, yrði fækkað til að ná upp meðalaldri tarfa á svæðinu. Þá gerði Björgvin Már Hansson á Fáskrúðsfirði athugasemd við tillögu að kvóta til veiða á kúm á svæði 6 og taldi m.a. að takmarka þyrfti veiðar úr hjörð sem er á milli Stöðvarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Nánar má lesa um málið á na.is. gudni@mbl.is