„Krefjandi að semja í þessu umhverfi“

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Undirritun kjarasamninga leggst vel í alla sem komu að gerð kjarasamningsins,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), í samtali við mbl.is en samtökin undirrituðu kjarasamning við Starfsgreinasambandið hjá ríkissáttasemjara síðdegis í dag. 

Viðræður stóðu yfir til klukkan eitt í nótt. 17 af 19 aðild­ar­fé­lög­um SGS und­ir­rituðu samn­ing­inn síðan síðdegis í dag.

„Við tölum um að þetta sé brú að bættum lífskjörum,“ segir Halldór en um er að ræða skammtímasamning sem gildir til 31. janúar árið 2024.

Krónutölu samningur

„Helstu atriðin eru þessi að þetta er krónutölu samningur, þar sem að í raun hækkanir koma til framkvæmda frá 1. nóvember,“ segir hann og bætir við að útgreiðslur til launafólks miðist við þann dag. Samningur tekur því við af samningi. 

„Það er krefjandi að semja í þessu umhverfi, bæði fyrir atvinnurekendur og verkalýðshreyfinguna. Við erum í tímabili mikillar verðbólgu og höfum verið í vaxandi kaupmætti undanfarin ár, sem hefur farið þverrandi hægt og bítandi. Af þeim sökum er ég gríðarlega stoltur af þeim áfanga sem við vorum að undirrita hér í dag. Þetta nær til launafólks hringinn í kringum landið og mér þótti afskaplega vænt um að formenn verkalýðsfélaganna, sem eru í samfloti Starfsgreinasambandsins, flugu og keyrðu hér í bæinn til þess að taka þátt í þessari stund með okkur.“

Hér má sjá kynningu á samningnum. 

Jólamynd með börnunum

Halldór segir að vöfflukaffið eftir undirritun samningsins tókst með miklum ágætum. 

„Núna tekur við kærkominn hvíld. Jólamynd með börnunum og hver veit nema við grillum hamborgara í kvöld,“ segir Halldór að lokum.

Enn á dagskrá SA eru kjaraviðræður við VR, Lands­sam­band ís­lenzkra verzl­un­ar­manna (LÍV) og sam­flot iðn- og tækni­greina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert