Andlát: Örn Jóhannsson, fv. skrifstofustjóri

Örn Jóhannsson, fv. skrifstofustjóri Árvakurs.
Örn Jóhannsson, fv. skrifstofustjóri Árvakurs. Mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Örn Jóhannsson, fyrrverandi skrifstofustjóri Árvakurs, lést að kvöldi sl. mánudags, 83 ára að aldri.

Örn fæddist 7. apríl 1939. Foreldrar hans voru hjónin Sigurbjörg Siggeirsdóttir húsmóðir og Jóhann Á. Jóhannesson bankafulltrúi.

Örn lauk verslunarprófi frá Verzlunarskóla Íslands 1957 og stundaði síðan nám við verslunarskóla á Englandi.

Hann hóf störf hjá Morgunblaðinu árið 1951 með námi og var fastráðinn þar 1958. Hann var ráðinn aðalgjaldkeri blaðsins árið 1959, þá tvítugur að aldri. Örn sagði í samtali við Morgunblaðið árið 2006, þegar hann rifjaði upp starfsferil sinn á blaðinu, að hann hefði gefið út og framselt allar ávísanir fyrir fyrirtækið en hafði ekki ávísanahefti sjálfur, því á þeim tíma urðu menn ekki fjárráða fyrr en 21 árs. Árið 1966 var Örn ráðinn skrifstofustjóri Árvakurs hf. og gegndi því starfi til ársins 2006.

Örn sat í stjórn Félags íslenska prentiðnaðarins um árabil og var formaður 1987 til 1993. Hann sat í stjórn Samtaka iðnaðarins frá stofnun 1994 til 2001, þar af varaformaður fjögur síðustu árin. Hann sat í framkvæmdastjórn VSÍ frá 1987 til 1997, í stjórn Lífeyrissjóðs bókagerðarmanna 1988 til 1996. Þá sat hann í stjórn Nordisk Grafisk Råd 1985 til 2001 og var formaður þess 1988. Hann var í stjórn Norrænna blaðaútgefenda frá 1984, þar af þrisvar formaður; í stjórn IFRA Nordic frá 1996 til 2006, þar af formaður um tíma. Þá sat hann í stjórn Iðnlánasjóðs 1995 til 1997, var varaformaður Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins 1998 til 2004 og sat í stjórn Sameinaða lífeyrissjóðsins. Þá var hann lengi formaður stjórnar Minningarsjóðs Jean-Pierres Jacquillats.

Eftirlifandi eiginkona Arnar er Edda Jónsdóttir, myndlistarmaður og stofnandi i8 gallerís. Synir þeirra eru Örn Þór og Börkur.

Við leiðarlok þakkar Morgunblaðið Erni langa samfylgd og sendir ástvinum hans innilegar samúðarkveðjur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert