Auðveldara að skemma en að byggja upp

Reykjavíkurborg tók við Vin fyrir um ári síðan.
Reykjavíkurborg tók við Vin fyrir um ári síðan.

„Þetta er alveg forkastanlegt að ákveða að skera þarna niður starfsemi sem kostar 50 milljónir á ári,“ segir Melkorka Ólafsdóttir tónlistarkona, en hún hefur sett af stað undirskriftasöfnun gegn lokun Vinjar á Hverfisgötu.

„Þetta er svo mikilvægt starf og þessi vettvangur getur hreinlega verið spurning um líf og dauða fyrir fullt af fólki. Það eru tugir manns sem koma þarna daglega og fá styrk og stuðning og vináttu og þetta skiptir gífurlegu máli fyrir einn viðkvæmasta hóp samfélagsins.“

Melkorka Ólafsdóttir tónlistarkona hefur sett af stað undirskriftasöfnun gegn lokun …
Melkorka Ólafsdóttir tónlistarkona hefur sett af stað undirskriftasöfnun gegn lokun Vinjar á Hverfisgötu. Ljósmynd/Aðsend

Rekið án vandkvæða í 30 ár

Borgin tók við rekstri Vinjar fyrir ári síðan, en áður hafði Rauði krossinn rekið starfsemina í hátt í 30 ár.

Í úttekt sem gerð var á síðasta rekstrarári Rauða krossins kom fram að hópurinn sem nýtir sér þjónustu Vinjar sé einn af jaðarsettustu hópum samfélagsins, þ.e. fólk með geðraskanir.

„Það er svo skýrt hvað þessi starfsemi skiptir máli og hvernig þessi vettvangur skiptir sköpum fyrir það fólk sem er í áhættuhóp hvað einangrun varðar,“ segir Melkorka, en einangrun er einn sá þáttur sem hefur hvað verstu áhrifin á viðkvæma hópa.

Hún segir að Vin sé fastur liður í lífi margra.

„Fólk getur farið þangað og fengið félagsskap og getur líka keypt sér mat,“ segir hún og ítrekar að það sé ekki frítt fæði í Vin heldur greiði fólk fyrir matinn, en það geti verið mikilvægt fyrir fólk sem býr eitt að nýta sér þann möguleika.

Mikilvægt lýðheilsumál

„Það er margt fólk sem sækir Vin sem býr eitt og sumir eru öryrkjar og geta farið þangað og verið yfir daginn og stundað félagsstarf þar og borðað með öðru fólki, en myndi annars bara einangrast heima hjá sér. Það getur verið stórhættulegt og aukið á veikindi þessa fólks. Þetta er mjög mikilvægt lýðheilsumál,“ segir Melkorka.

Að stuðla að aukinni lýðheilsu sé ein besta besta fjárfestingin til lengri tíma litið. 

„Þetta er algjör skammtímahugsun hjá borginni að ætla að loka Vin. Þarna er þrjátíu ára starf sem á bara að eyðileggja. Það er miklu auðveldara að skemma heldur en að byggja upp. Það er bara hræðilegt og má ekki gerast.“

Fyrirsláttur hjá borginni

Melkorka gefur lítið fyrir svör frá borgaryfirvöldum þess efnis að önnur úrræði verði fundin í stað Vinjar. 

„Það eitt að það sé ekki búið að finna önnur úrræði en lýsa því samt yfir að það eigi að loka Vin er bara fáránlegt og ekkert nema fyrirsláttur. Svona staðhæfingar þjóna einungis þeim tilgangi að slá á baráttuvilja fólks. Svo má líka spyrja hvers vegna eigi að finna önnur úrræði þegar þetta virkar svona rosalega vel? Þetta stenst bara enga skynsamlega skoðun,“ segir hún.

„Allt þetta mál virkar mjög vanhugsað, hvernig sem á það er litið og öll óvissa er kvíðavaldandi fyrir alla, ekki síst þennan hóp. Og ekki bætir það að benda á einhver önnur úrræði sem síðan ekki er hægt að segja hver verði. Allt þetta mál virðist benda til alvarlegrar vanþekkingar á þessum málaflokki,“ segir hún að lokum.

Kveðst hún vonast til að undirskriftalistinn geti verið liður í því að halda Vin á Hverfisgötunni opinni fyrir sína fastagesti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert