„Þetta dregur nú svolítið tennurnar úr þessu,“ segir Einar Oddur Sigurðsson í samtali við mbl.is, lögmaður og verjandi annars mannanna sem grunaðir eru um að hafa ætlað að fremja hryðjuverk á Íslandi og handteknir voru á haustmánuðum. Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði nú fyrir hádegið kröfu héraðssaksóknara um gæsluvarðhald en mennirnir voru látnir lausir fyrr í vikunni.
„Þarna þarf annaðhvort að vera sterkur grunur um brot sem varðar tíu ára fangelsi eða almannahagsmunir krefjist þess að þeir sæti gæsluvarðhaldi og í mínum málflutningi var því mótmælt að þessi skilyrði væru fyrir hendi,“ heldur verjandinn áfram.
Kveður hann það augljóst að krafa og sjónarmið héraðssaksóknara hafi ekki hlotið brautargengi og nú í tvígang, vísar hann þar til úrskurðar Landsréttar um að mennirnir væru ekki metnir hættulegir. „Og núna reyna þeir [ákæruvaldið] að fara fram á nýjum grundvelli og fá ekki framgöngu í héraðsdómi en nú er spurning hvort héraðssaksóknari kæri úrskurðinn til Landsréttar og fái þá umfjöllun þar,“ segir Einar Oddur.
Hann segist þeirrar skoðunar að nú sé búið að leggja ákveðnar línur í málinu. „Það er búið að slá hættueiginleika þessara manna út af borðinu og manni finnst að það sé aðeins farið að molna undan málatilbúnaði ákæruvaldsins,“ segir hann enn fremur.
Hvað gerist þá næst í málinu?
„Þeir eru bara lausir, kæra [úrskurðarins] breytir í raun engu nema Landsréttur ákveði að snúa úrskurðinum. Því sem lögreglan hefur byggt á núna í þrjá mánuði var hafnað í Landsrétti á þriðjudaginn, að það þurfi að fjarlægja þessa menn úr þjóðfélaginu, þeir séu hættulegir og hafi verið komnir á fremsta hlunn með að fremja einhver voðaverk. Það er búið að kynna þeim ákæru, Landsréttur tekur þarna ákvörðun eftir að vera búinn að marglesa gögnin, þar er tekin ákvörðun um að sleppa þeim, það eru ekki forsendur fyrir því sem lögreglan hefur haldið fram til þessa [...] ég held að ákæruvaldið hljóti að velta því fyrir sér að gera einhverjar breytingar á þessari ákæru,“ segir lögmaðurinn.
Hvernig upplifir Einar Oddur sinn skjólstæðing, er tilbúnaður máls sem íslensk þjóð var slegin óhug yfir í haust tómt píp?
„Sko, hann hefur gengist við vopnalagabroti, það á eftir að koma á daginn hvort það verði játað að öllu leyti eða að hluta, þeir voru að sýsla við að prenta byssur og það er bara gengist við því. En algjörlega frá upphafi hefur öllu í tengslum við þetta hryðjuverkasakarefni algjörlega verið hafnað. Þetta verður samt alltaf hangandi yfir honum og þetta er ótrúlega þungbært. Þarna sitja menn í gæsluvarðhaldi á þeim grundvelli að þeir hafi verið komnir á fremsta hlunn með að gera eitthvað en það er ekkert í málinu sem bendir til þess, þetta er gríðarlega erfitt fyrir hann og alla sem honum tengjast,“ segir Einar Oddur Sigurðsson verjandi að lokum.