Strandaglópar víðs vegar um Evrópu í 4 daga

Sigyn Jara Björgvinsdóttir og Máni Hákonarson á flugvellinum í Tenerife …
Sigyn Jara Björgvinsdóttir og Máni Hákonarson á flugvellinum í Tenerife þar sem þau bíða eftir að komast um borð í flugvél á leið til Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Frá Íslandi til Kanarí, frá Kanarí til Mílanó, frá Mílanó til London, frá London til Tenerife og frá Tenerife vonandi til Íslands aftur. Svona hljómar ferðalag Sigynjar Jöru Björgvinsdóttur og Mána Hákonarsonar sem hafa verið strandaglópar í Evrópu í fjóra daga.

Þau eru tveir af þeim fjölmörgu farþegum sem lentu í því að fluginu þeirra var aflýst vegna illviðris sem gekk yfir í vikunni. Sigyn og Máni áttu að komast heim á mánudaginn var en lenda vonandi í kvöld. Þau hafa síðan á mánudaginn flakkað á milli ýmissa flugvalla víðs vegar um Evrópu.

Eins og áður hefur verið greint frá voru miklar truflanir á flugumferð í vikunni og þurfti að aflýsa fjölmörgum flugferðum til og frá Keflavíkurflugvell vegna veðurofsa og ófærðar á Reykjanesbrautinni. 

Kanarí, Mílanó, London, Tenerife og svo Ísland

Upprunalega áttu Sigyn og Máni flug heim á mánudeginum frá Kanarí til Íslands með stuttu stoppi í borginni Mílanó á Ítalíu með flugfélaginu Wizz Air. Þegar til Mílanó var komið var þeim tilkynnt að fluginu þeirra til Íslands væri aflýst. 

Þau höfðu bókað flugferðirnar í gegnum flugferðaþjónustu Kiwi og steig þá fyrirtækið inn í og fann fyrir þau flug á vegum Easyjet frá Mílanó til London í Englandi og flug með Icelandair þaðan til Íslands. Daginn eftir flugu þau til London án vandræða en lentu þá aftur í því að fluginu þeirra til Íslands var aflýst. 

Á þeim tímapunkti firrti Kiwi sig ábyrgð af málinu og tók Icelandair við parinu til að reyna koma þeim heim fyrir jól. Útvegaði þá Icelandair þeim flug heim tveimur dögum seinna. Sá hængur var á þeirri flugferð að þau myndu fyrst fljúga til Tenerife og þaðan til Íslands.

Þegar blaðamaður mbl.is setti sig í samband við strandaglópana í Evrópu voru þau komin til Tenerife. Sigyn bendir á hve spaugilegt það er að vera í raun komin aftur á byrjunarreit þremur dögum seinna en Tenerife-eyja er við hlið Kanarí-eyju. 

Ákveðið tjón en taka þessu af jákvæðni

Sigyn bendir á að í raun sé um þó nokkurt fjárhagstjón að ræða þar sem þau séu bæði búin að missa af nokkrum vöktum og þar að auki þurft að greiða fyrir gistingu og mat í stórborgum í Evrópu. Þau hafa þó fengið gistinguna í Mílanó endurgreidda frá Kiwi og vonast til að fá gistinguna í London endurgreidda sömuleiðis. 

„Þetta eru nokkrir dagar í Mílanó og London og það kostar að lifa. Maður er búinn að missa af jólahlaðborðum og tónleikum og fleira,“ segir Sigyn sem vonar að Icelandair sjái sér fært á að endurgreiða þeim gistinguna í London.

Þau segja þó að hlutirnir gætu verið töluvert verri og taka þessu ferðabrölti með stóískri ró. 

„Við erum náttúrlega bara ung og sveigjanleg og ekki með börn í pössun eða með okkur í ferðinni,“ segir Sigyn og bendir á að þetta hefði getað verið verra ef aðrir hefðu lent í sömu spörum og þau.

Sigyn Jara Björgvinsdóttir og Máni Hákonarson halda í gleðina þrátt …
Sigyn Jara Björgvinsdóttir og Máni Hákonarson halda í gleðina þrátt fyrir að hafa verið strandaglópar í Evrópu í fjóra daga. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert