„Ætla að kynnast konunni minni“

Jósef Kristjánsson, Jobbi, við hlið forláta Rolls Royce-bifreiðar sem hann …
Jósef Kristjánsson, Jobbi, við hlið forláta Rolls Royce-bifreiðar sem hann sagði á sínum tíma í viðtali við mbl.is að hann hygðist aðeins nota á tyllidögum á borð við 17. júní. mbl.is/Árni Sæberg

„Já, þetta er alveg rétt,“ segir Jósef Kristjánsson, hugsanlega mun betur þekktur sem Jobbi, driffjöður bónstöðvarinnar Hjá Jobba frá 1986 til dagsins í dag. Svarar hann þarna fyrirspurn um hvort rétt sé að hann sé að setjast í helgan stein og fyrirtækið verði um leið lagt niður um áramótin.

„Ég er að verða sjötugur,“ segir Jobbi sem á sér fjögurra áratuga sögu í bóninu. „Ég byrjaði hjá Sveini Egilssyni '82 og gerðist svo sjálfstæður '85 eða '86,“ segir hann frá en bifreiðaumboð Sveins, þá í Skeifunni 17, var á sínum tíma á höttunum eftir manni til að sjá um þá deild sem annaðist þrif og standsetningu nýrra bifreiða.

Sveinn Egilsson flutti svo í Faxafen 10, Hús Framtíðar, og hafði Jobbi þá samið við Svein um sjálfstæðan rekstur og föst verkefni. Hófst sá rekstur í kjallara hússins vorið 1986 og var plássið nógu gott til að Jobba væri stætt á að auglýsa stærstu bónstöð landsins, fimmtán bifreiðar rúmuðust hjá honum í kjallaranum.

Jákvæðar og neikvæðar breytingar

Jobbi flutti til baka í Skeifuna 17 þegar Sveinn Egilsson hætti starfsemi og þar er hann enn. „Ég byrjaði fyrst með fyrirtækið bara á eigin nafni en núna er ég með kennitölu frá 1997,“ segir hann og bætir því við að gríðarmargt standi upp úr eftir áratugalangan rekstur fyrirtækisins með nafnið sem ætti að vera allmörgum landsmönnum kunnugt.

Jobbi hefur bónað flest, þó ekki flugför. Hann sest nú …
Jobbi hefur bónað flest, þó ekki flugför. Hann sest nú í steininn helga eftir 40 stífbónuð ár. Ljósmynd/hjajobba.is

„Það eru bara alls konar skemmtilegheit og uppákomur og skrýtilegheit, ég er búinn að vera með fjölda fastakúnna sem hafa margir hverjir komið til mín í 30 ár, það hefur verið mjög mikið um slíkt,“ segir Jobbi frá þegar hann lítur til baka yfir árin í bóninu.

Hvernig finnst honum atvinnugreinin bílaþrif hafa breyst á þeim fjórum áratugum sem hann þekkir til?

„Aðalbreytingin er hve mikið er komið af nýjum og góðum efnum og hve úrvalið er orðið mikið. Eins ending efnanna, en svo er neikvæða breytingin í því sambandi að menn auglýsa og lofa nánast kraftaverkum í sambandi við endingu. Efnin eru vissulega góð en ég er afskaplega skeptískur á þessar auglýsingar, þær eru orðnar svolítið siðlausar að mörgu leyti,“ segir Jobbi.

Allt nema flugvélar

„Ég hef þrifið og bónað allt nema flugvélar, hingað hefur allt komið, seglskútur, snjótroðarar, alls konar bílar og alls konar farartæki, vélsleðar og mótorhjól,“ rifjar þessi bóngóði maður upp sem sannarlega hefur marga fjöruna sopið á sínum vettvangi. En flugvélar þvertók hann fyrir að bóna.

„Já já, ég hef verið beðinn að bóna flugvélar, hringt var í mig frá fyrirtæki sem þjónustaði einkavélarnar á Reykjavíkurflugvelli og ég spurður hvort ég vildi bóna vélarnar, mér yrði skaffað flugskýli og allt. Ég hikstaði nú aðeins og svo spurði ég nú bara: „Heyrðu, ef þú værir að fara upp í þessa flugvél og einhver sem hefði ekkert vit á flugvélum væri búinn að príla upp um hana alla og kannski stíga á eitthvað sem ekki mætti, myndirðu fara í þá flugferð?“ Og þá áttaði hann sig nú sá sem hringdi svo af þessu varð nú ekki,“ segir Jobbi af því tilboðinu.

Hvernig líst honum á samkeppnisumhverfi atvinnugreinarinnar nú til dags?

„Samkeppnin núna seinustu ár er orðin þannig að það er ekki hægt að reka bónstöð eins og ég rek, fjárhagslega séð,“ svarar Jobbi. Upp hafi sprottið fjöldi stöðva sem bjóði þannig verð að það standist aldrei miðað við greiðslur á virðisaukaskatti, húsaleigu, skatta, gjöld „og hvað þá laun“, segir hann.

Eitt íslenskt nafn

„Þetta er að verða óvinnandi vegur, alveg eins og sums staðar hefur viðgengist í byggingargeiranum og veitingageiranum, menn eru að bjóða verð sem ekki standast neinar rekstrarlegar forsendur, en þetta er auðvitað viðkvæmt og ég á ekkert að vera að segja þetta kannski, þarna er fullt af góðum mönnum sem vinna ábyggilega ágætlega og tala allir austurevrópsk tungumál og svo er eitt íslenskt nafn sem er frontur,“ heldur Jobbi áfram.

Jobbi við störf árið 2017 þegar ljósmyndari mbl.is tók á …
Jobbi við störf árið 2017 þegar ljósmyndari mbl.is tók á honum hús vegna viðtals. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann hættir um áramótin og þá hverfur nafn þessa rótgróna fyrirtækis líklega úr sögunni. Kom ekki til greina að einhver tæki við keflinu úr hendi Jobba?

„Það er nú búið að vera svolítið í deiglunni og einhverjar þreifingar en það eru ástæður fyrir því að ég hef ekki hugsað mér að selja og nú hætti ég bara, ég ætla að fara að kynnast konunni minni sem ég er búinn að vera kvæntur í fimmtíu ár,“ segir Jobbi glettnislega.

„Nú ætla ég að fara að færa mig meira inn í eldhúsið, ég hef mjög gaman af eldamennsku, og svo förum við bara að ferðast með hjólhýsi um landið og bara vera saman,“ segir Jósef Kristjánsson að lokum, Jobbi, sem bónað hefur í fjörutíu ár og sér nú loks fyrir endann á gljáfægðum sjálfrennireiðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert