Frost fór í 27 stig – snjóar á gamlársdag

Ekki fer að hlýna fyrr en á nýju ári.
Ekki fer að hlýna fyrr en á nýju ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frost fór niður í 27,3 stig í Veiðivatnahrauni á miðhálendinu og 24,4 stig í Víðidal í Reykjavík í dag. Frost í Reykjavík var þó almennt á bilinu 6 til 10 gráður. Þá er von á snjókomu um allt land á gamlársdag. 

Víða hefur verið ansi kalt og verður áfram kalt á morgun, að sögn Haraldar Eiríkssonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Stíf norðanátt er á morgun með éljum norðan- og austanlands. 

Á föstudag gengur norðanáttin rólega niður en áfram verður él norðan- og austan til.

Óvíst hve mikið snjóar á gamlársdag

Þegar vind hægir þá herðir frostið aftur og verða því sennilega hærri frosttölur á föstudaginn þar sem vindur verður þá hægari. Útlit er fyrir snjókomu um allt land á gamlársdag en skýrast mun betur þegar nær dregur, hvenær hún byrjar og hve mikil snjókoman verður.

Snjókoman verður gengin yfir á nýársdag en þá verða dálítil él víða, en áfram kalt. Á mánudaginn annan janúar er útlit fyrir að frost minnki en einhver úrkoma verður sunnan- og vestanlands, jafnvel frostlaust á suðausturströndinni.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert