„Getum auðvitað aldrei sigrað brjálað veður“

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra, fundaði í dag með innviðaráðherra, ásamt lykilfólki í ferðaþjónustunni, varðandi lokanir á vegum síðustu daga og áhrif þeirra á ferðaþjónustuna. 

„Það er auðvitað þannig að ferðaþjónustan er sú atvinnugrein sem skapar mestan gjaldeyri fyrir þjóðarbúið,“ segir hún í samtali við mbl.is og nefnir að á síðustu tólf mánuðum hafi ferðaþjónustan skilað 411 milljörðum í þjóðarbúið.

„Vægi vetrarþjónustu hefur verið að aukast mjög mikið síðustu ár. Það er auðvitað mikill ávinningur sem fylgir því, fyrir allt samfélagið en líka nýjar áskoranir. Arðsemi í greininni grundvallast á því að við getum boðið upp á heils árs ferðaþjónustu og því er mjög mikilvægt að styðja við alla innviði og styrkja þá enn frekar í góðri samvinnu við alla hagaðila.“

Lilja segir að ekki hafi verið rætt að bæta upp það fjárhagstjón sem ferðaþjónustan hefur orðið fyrir vegna lokananna, enda ekki fordæmi fyrir slíku. 

„Vaxið sem vetrarferðaþjónustuland“

Lilja nefnir að Sig­urður Ingi Jó­hanns­son innviðaráðherra hefur sett af stað hóp til að fara yfir verkferla er varða lokun Reykjanesbrautarinnar rétt fyrir jól. Þeirri vinnu á að ljúka í lok janúar. 

„Það er auðvitað viðurkenning á mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir þjóðarbúið. Ég sem ferðamálaráðherra legg auðvitað gríðarlega áherslu á það, að allir innviðir séu traustir og að við getum vaxið sem vetrarferðaþjónustuland. Þannig tryggjum við að sú fjárfesting sem hefur átt sér stað í ferðaþjónustunni nýtist sem best.“

Ræddu þið á fundunum í dag mögulegar lausnir?

„Þeirri vinnu hjá innviðaráðherra lýkur á næstu vikum. Ég einblíni á hið þjóðhagslega mikilvægi ferðaþjónustunnar og að það er allt samfélagið sem nýtur ávinningsins af öflugri ferðaþjónustu, bæði efnahagslega og líka í aukinni þjónustu.“

Spurð hvort að ákvarðanir um lokanir vega skuli vera hjá öðrum aðila en Vegagerðinni segist Lilja ekki sagt til um það. 

„Þetta er sú vinna sem er í gangi. Það er ekki ábyrgt af mér að fara fullyrða eitthvað um það fyrr en við sjáum hvaða tillögur koma út úr þessari vinnu. Aðalatriðið er að það sé gríðarlega góð samvinna á milli vegamálayfirvalda, almannavarna, björgunarsveita, og að sjálfsögðu ferðaþjónustunnar. Allir þessir aðilar þurfa að vinna eins og einn aðili þegar veðrið birtist okkur í þessum ham.“

Í góðum samskiptum

Lilja kannast ekki við að skortur sé á samvinna á milli stjórnvalda og ferðaþjónustunnar en Jó­hann­es Þór Skúla­son, formaður SAF, kallaði eft­ir bætt­um sam­skipt­um, þá sérstaklega við Vegagerðina, í Morg­un­blaðinu í dag.

Hún segir að stjórnvöld hafi verið í samskiptum við lykilaðila á meðan óveðrið hefur staðið yfir í desember. 

„Núna skiptir mestu máli að við sjáum hvað er hægt að bæta og hvernig við tryggjum að það sé hægt að reiða sig á þessa innviði til þessa þjónustu. En við getum auðvitað aldrei sigrað brjálað veður, en við eigum að vera við öllu viðbúin. Tryggja að öruggar samgöngur geti farið af stað um leið og veðrið er viðráðanlegt.“

Þakklát björgunarsveitunum

Lilja kveðst vera gríðarlega þakklát fyrir alla þá sjálfboðavinnu sem björgunarsveitir landsins hafa unnið síðustu daga. 

„Þau hafa unnið þrekvirki við að aðstoða samfélagið allt og ferðamenn sem hafa lent í ógöngum,“ segir hún. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert