Aðeins einn á bráðamóttökuna með flugeldaáverka

Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítala.
Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítala. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýársnóttin var í rólegri kantinum miðað við venjulegt ástand á bráðamóttöku Landspítalans og segir Hjalti Már Björnsson yfirlæknir það eftirtektarvert að einungis einn einstaklingur hafi leitað þangað í nótt eftir flugeldaslys, en sá var með minni háttar áverka.

„Almenningur virðist hafa farið varlega og fylgt reglum varðandi öryggismál,“ segir Hjalti í samtali við mbl.is og bætir við að yfirleitt leiti í kringum tíu einstaklingar á bráðamóttökuna á nýársnótt vegna áverka eftir flugelda.

Meira um slys vegna ölvunar

Heilbrigðisstarfsfólk þurfti aftur á móti að sinna talsvert mörgum ölvuðum sem höfðu slasast.

„Það var, eins og oft verður þegar skemmtanalíf fer á flug, talsvert álag að sinna afleiðingum af áfengisneyslu og það kemur fram í ýmsum myndum. Sumir verða ofbeldishneigðir og aðrir detta og meiða sig,“ segir Hjalti.

„Svo fylgir neysla áfengis og vímuefna oft andleg vanlíðan.“

Spurður hvort kalla hafi þurft fleira fólk á vakt, segir Hjalti að alltaf sé mannað aukalega fyrir þennan tíma.

„Það hefur gengið vel á bráðamóttökunni þessi áramótin, það er mikið álag á legudeildum og annars staðar á spítalanum en flæðið á bráðamóttökunni hefur gengið vel.“

Heilbrigðiskerfið hefur húmor fyrir þessu

Spurður út í áramótaskaupið sem sýnt var í gærkvöldi segir Hjalti að sér hafi fundist það mjög skemmtilegt.

Í skaupinu var meðal annars gert grín að auglýsingaherferð heilsugæslunnar þar sem fólk var hvatt til þess að halda sig heima væri það með ælupest eða aðrar hefðbundnar umgangspestir.

„Mér fannst fyndið hvernig gert var grín að heilbrigðiskerfinu sem hefur alveg húmor fyrir þessu eins og öllu öðru,“ segir Hjalti um atriðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert