Agnes biskup tilkynnir starfslok

Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, kynnti útgáfu á hirðisbréfi sínu í nýársprédikun sinni í Dómkirkjunni í morgun. Bréfið er upptaktur á starfslokum hennar sem verða eftir 18 mánuði. 

Agnes hyggst ljúka vísitasíu sinni um landið í Bolungarvík á sjómannadaginn 2024 en hún verður sjötug á því ári.

Hún tók við embættinu árið 2012, fyrst kvenna til að gegna því.

Þegar ég lít yfir farin veg er ég afar stolt af því sem áunnist hefur. Ég vissi að oft yrði á brattann að sækja í þeirri umbótavinnu sem ég vildi leggjast í. Og oft hefur gefið á bátinn. En þá er gott að hafa styrkingarorð frelsarans í huga og hjarta sem hefur ávallt lægt öldurnar þegar við lærisveinarnir verðum hrædd, þreytt og mædd í bátnum,“ sagði hún í prédikun sinni.

Nægan tíma til undirbúnings 

Agnes sagði að útgáfa nýrrar sálmabókar hafi verið mikið afrek sem hún er afar stolt af.

Þá minntist hún á að umhverfismál innan þjóðkirkjunnar hafi vaxið mikið undanfarin ár og rödd kirkjunnar í mannréttindamálum hælisleitenda og flóttamanna orðið háværari.

Agnes sagði í ávarpinu að ástæða þess að hún tilkynni starfslokin svo snemma sé svo að þau sem undirbúa kosningu næsta biskups hafi nægan tíma til undirbúningsins og þau sem hyggjast gefa kost á sér hafi nægan tíma til að undirbúa sig og kynna sín sjónarmið.   

Hún sagði að þjóðkirkjudagar er nýr biskup verði kosinn verði haldnir á mörkum sumar og hausts árið 2024. Dagarnir munu enda með vígslu á nýjum biskupi Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert