Hefði átt að ljúka við samning fyrir löngu

Flugvél Play á Keflavíkurflugvelli.
Flugvél Play á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samningamál flugvirkja hjá fyrirtækinu GMT, sem meðal annars starfa fyrir Play, verða rædd í næstu viku.

Forsvarsmenn GMT gátu ekki fundað síðustu vikur fyrir jól eins og vonir stóðu til en ráðin verður bót á því á næstunni, að sögn Grétars Guðmundssonar, formanns Flugvirkjafélags Íslands.

Síðasti samningur flugvirkja hjá GMT, sem var undirritaður fyrir áratug síðan, er laus. Árið 2018 var samið um að flugvirkjarnir myndu fylgja aðalkjarasamningi Flugvirkjafélags Íslands sem þá var undirritaður og flestir flugvirkjar starfa eftir.

Hafa fylgt öllum launahækkunum

Áður en kórónuveirufaraldurinn hófst stóð til að ræða um nýjan kjarasamning flugvirkja hjá GMT. Í faraldrinum var flugvirkjum hjá fyrirtækinu aftur á móti sagt upp. Eftir að þeir voru endurráðnir vorið 2021 hefur staðið til að gera við þá nýjan kjarasamning.  

Flugvirkjar að störfum.
Flugvirkjar að störfum. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

„Það hefur verið uppi á borðum að klára þetta síðasta eina og hálfa árið síðan þeir fóru af stað aftur. Þeir hafa fylgt öllum launahækkunum sem hafa verið í aðalkjarasamningnum og ekki setið eftir í þeim efnum,“ greinir Grétar frá, en tekur fram að það hefði fyrir löngu átt að vera búið að ljúka við nýjan samning. Hann telur líklegt að samningurinn endi á svipuðum nótum og samningur sem Icelandair gerði við Flugvirkjafélags Íslands.

Flugvirkjar á vegum GMT, sem eru á þriðja tug talsins, starfa einnig í Danmörku og Finnlandi.

Fleiri flugfélög dregið lappirnar

Að sögn Grétars hafa önnur félög dregið lappirnar í því að semja við flugvirkja og nefnir hann þar bæði Play og Bluebird. GMT annast viðhald hjá Play en starfsmenn á skrifstofu flugfélagsins sem greiða til Flugvirkjafélags Íslands, eru ekki með kjarasamning. Þeir eru innan við fimm talsins, segir hann.

Aðalkjarasamningurinn rennur út í lok árs 2025, en gerður var sérstakur neyðarsamningur vorið 2020 vegna Covid-19. Samningurinn hefur ekkert hækkað fyrir en núna um áramótin þegar hann hækkaði um 3%.

Um 480 félagsmenn eru í Flugvirkjafélagi Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert