„Við skulum bara sjá hvað gerist“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, fremst í flokki á leið …
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, fremst í flokki á leið til fundar í ranni ríkissáttasemjara fyrir jól. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er alla vega bjartsýn á að Efling muni á endanum skrifa undir góðan kjarasamning sem henti Eflingarfélögum,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður stéttarfélagsins Eflingar, í samtali við mbl.is um gagntilboð félagsins til Samtaka atvinnulífsins sem hér var fjallað um í morgun og í gær.

Kveður Sólveig Anna Eflingu sýna ríkulegan samstarfsvilja svo sem félagið hafi gert frá upphafi viðræðna, „ólíkt viðsemjendum okkar“, bætir hún við. „Við komum til móts við Samtök atvinnulífsins en við höfum unnið nýja launatöflu sem hentar Eflingarfólki, taflan sem SA samdi um við SGS [Starfsgreinasambandið] gerir það ekki,“ heldur formaðurinn áfram.

Framfærsluuppbótin ódýrari fyrir launagreiðendur

Segir hún Eflingu leggja mesta áherslu á annað og þriðja starfsaldursþrepið á þeirri forsendu að þar sé stærstur hluti Eflingarfólks staðsettur. „Við förum áfram fram á framfærsluuppbótina sem er mjög mikilvægur hluti af okkar kröfum og er sama upphæð og verið hefur nema hvað að nú bjóðum við að hún standi utan við grunnlaunin og verði þar með ódýrari fyrir atvinnurekendur,“ útskýrir Sólveig Anna.

Í gagntilboði Eflingar til SA er klykkt út með því að hafni tilboðshafi tilboðinu sem grundvelli frekari viðræðna muni Efling lýsa viðræðurnar árangurslausar og hefja undirbúning verkfallsaðgerða. Telur Sólveig Anna að til þessa komi?

„Við skulum bara sjá hvað gerist, við erum alla vega undirbúin fyrir það,“ svarar formaðurinn og gefur ekki meira út á verkfallsumræðu að svo stöddu.

Uppfært kl. 12:35:

Ríkissáttasemjari hefur boðað Eflingu og SA á sáttafund klukkan 11:00 í fyrramálið, þriðjudag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert