Fundur samninganefndar Eflingar að hefjast

Sólveig Anna segir kröfur um hærri laun verkafólks í Reykjavík …
Sólveig Anna segir kröfur um hærri laun verkafólks í Reykjavík raunhæfar vegna aukins framfærslukostnaðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fundur samninganefndar Eflingar er að hefjast núna í Guðrúnartúni eftir að hafa slitið viðræðum við Samtök atvinnulífsins fyrr í dag. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að nú verði næstu skref undirbúin, sem miðast væntanlega að því að fá umboð félagsmanna til verkfallsboðunar.

„Nú bara hefst þessi vinna og ég get ekki sagt hversu langan tíma hún tekur,“ segir Sólveig.

Hún segist lítið gefa fyrir orð Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, um að Efling hafi allan tímann ætlað að fara í verkfall.

Einnig segir hún kröfur um hærri laun verkafólks í Reykjavík raunhæfar vegna aukins framfærslukostnaðar.

Ómarktækur málflutningur

„Þetta eru augljóslega ekki óhóflegar kröfur og það er magnað að þeir séu að halda því fram. Þeir sem að skoða hagvöxt, þeir sem að skoða afkomu fyrirtækjanna, þeir sem horfast í augu við þann kostnað sem þarf til að komast af í þessari borg hljóta náttúrulega að átta sig á því að þessi málflutningur er algjörlega ómarktækur.

Það þarf ekki annað en að skoða opinber gögn sem öllum eru aðgengileg, meðal annars á vefsíðu Eflingar, til að sjá að framfærslukostnaður á höfuðborgarsvæðinu er verulega meiri en úti á landi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert