Allstórt snjóflóð við Flateyri „kom á óvart“

Frá Flateyri. Mynd úr safni.
Frá Flateyri. Mynd úr safni. mbl.is/Hallur Már

Snjóflóðaratsjá á Flateyri nam það í gærkvöldi, klukkan 23.12, þegar allstórt snjóflóð féll í Miðhryggsgili innan við bæinn sem stöðvaðist um 40 metra ofan við veg.

Í tilkynningu frá Veðurstofunni kemur fram að mesti hraði flóðsins hafi mælst um 54 metrar á sekúndu.

Óli­ver Hilmarsson, sér­fræðing­ur á sviði snjóflóða á of­an­flóðavakt Veður­stof­unn­ar, greindi frá flóðinu í samtali við mbl.is fyrr í dag.

„Flóðið féll ofan við veg en flóð á þessu svæði geta ógnað Flat­eyr­ar­vegi. Veg­ur­inn hafði verið á óvissu­stigi áður en hann var kom­inn af óvissu­stigi þegar flóðið féll og ekki var mikið að veðri þegar flóðið fór af stað.“

Þessi skýringarmynd er teiknuð eftir gögnum frá ratsjánni og sýnir …
Þessi skýringarmynd er teiknuð eftir gögnum frá ratsjánni og sýnir útbreiðslu flóðsins. Grafík/Veðurstofan

Svipaðar aðstæður geti leynst víða

„Snjóflóðið kom á óvart þar sem veðrið var að mestu gengið niður en er að sama skapi vísbending um að það þurfi ekki mikið álag til að setja af stað snjóflóð,“ segir í tilkynningunni.

Búast megi við að svipaðar aðstæður geti verið til staðar víða á landinu þar sem nýr snjór hefur fallið og safnast upp. Útivistarfólk er hvatt til að fara með gát ef ferðast er um brattar hlíðar með nýjum snjóalögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert