Farþegar þakka fyrir viðbrögð bílstjóra

Rútan fór út af veginum við Draugahlíðabrekku vestan við Þrengslavegamót.
Rútan fór út af veginum við Draugahlíðabrekku vestan við Þrengslavegamót. Skjáskot/Vegagerðin

Farþegar rútunnar sem fór út af veginum vestan við Þrengslaveg í gærmorgun eru afar þakklátir fyrir viðbrögð bílstjórans.

Í rútunni voru um 20 manns á leið í vinnuferð á Flúðir. Glerhálka var á veginum og hvasst og byrjaði rútan að renna til í einni vindhviðunni, að sögn Írisar Sigtryggsdóttur, rekstrarstjóra Bus4U.

„Snilldarviðbrögð“

Rútan hefði getað farið á hliðina ef ekki hefðu komið til skjót viðbrögð rútubílstjórans. „Hann ákveður að keyra hana út af. Þetta voru snilldarviðbrögð hjá honum,“ segir Íris.

„Hópurinn er búinn að hafa samband og þau eru endalaust þakklát fyrir hans viðbrögð.“

Saltbíll einnig í vandræðum

Íris bætir við að bílar hafi komið í kjölfarið sem áttu í erfiðleikum á veginum, þar á meðal saltbíll frá Vegagerðinni. Hann náði þó að halda sig á veginum en það hefði getað farið illa ef hann hefði lent aftan á rútunni, segir hún.

„Allt fór vel og við erum endalaust þakklát fyrir það.“

Dregin í burtu í gærkvöldi

Rútan var dregin í burtu um tíuleytið í gærkvöldi í samstarfi við lögregluna, en loka þurfti veginum á meðan. Verkefnið tók um klukkustund.

Að sögn Írisar er rútan komin í hús. Hún var yfirfarin í morgun og var hún með öllu óskemmd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert