Kaupmáttur aukist hér ólíkt umheiminum

Konráð S. Guðjónsson, efnahagsráðgjafi Samtaka atvinnulífsins.
Konráð S. Guðjónsson, efnahagsráðgjafi Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það liggur fyrir að kaupmáttarvöxtur verkafólks hefur verið tvöfalt hraðari en kaupmáttarvöxtur almennt og við höfum verið að horfa til þess í þessum samningaviðræðum að halda áfram í þá átt,“ segir Konráð S. Guðjónsson efnahagsráðgjafi Samtaka atvinnulífsins sem situr í samninganefnd um samninginn sem Samtök atvinnulífsins gerðu við Starfsgreinasambandið.

„Það er sérstök áhersla á hækkun taxta eins og við lífskjarasamninginn sem er töluvert meiri en í flestum tilfellum hjá þeim sem eru á hærri launum,“ segir hann.

„Miðað við verðbólguspá Seðlabankans liggur fyrir að kaupmáttur yfir allan samningstímann vex á milli 4-8 prósent í heildina og aðeins minna á ársgrundvelli sem er í takt við lífskjarasamninginn.“

Gröf um launaþróun úr kynningu SA.
Gröf um launaþróun úr kynningu SA. Graf/SA

„Hins vegar erum við alveg heiðarleg með það að við vitum ekki hvernig verðbólgan verður. Kannski verður hún aðeins meiri, kannski verður hún aðeins minni.

En við teljum að þetta sé raunhæft og ef maður setur þessar tölur aðeins í samhengi þá er ekki að ástæðulausu að samningarnir við Starfsgreinasambandið voru samþykktir með yfirgnæfandi meirihluta. Við teljum að við séum að teygja okkur mjög langt til þess að mæta stöðu launafólks á Íslandi í dag.“

Hvar stendur hnífurinn í kúnni þegar kemur að Eflingu?

„Það er svolítið erfitt að átta sig á því. Núna tiltölulega nýlega kemur upp úr kafinu að Efling þurfi að fá meiri hækkanir vegna þess að framfærslukostnaður sé hærri á höfuðborgarsvæðinu en annars staðar á landinu. Það hafði ekki heyrst fyrr en Starfsgreinasambandið var búið að semja,“ segir Konráð sem kveðst ekki geta tekið undir þann málflutning.

Samanburður á launaþróun úr samantekt SA.
Samanburður á launaþróun úr samantekt SA. Graf/SA

Forsendur fullyrðinga veikar

„Í fyrsta lagi viljum við ekki draga þjóðina í dilka með þessum hætti, en þó er líka alvarlegt að forsendur þessara fullyrðinga eru byggðar á vægast sagt veikum grunni. Þetta er byggt á svokölluðum framfærsluviðmiðum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins sem eru ekki betri en svo að þau hafa ekki verið uppfærð í fjögur ár og eru ekki einu sinni aðgengileg lengur hjá ráðuneytinu.

Annað vandamál við þessi framfærsluviðmið er að þau mæla ekki það sem fólk þarf til að komast af. Þau mæla einfaldlega miðgildi neyslu í ákveðnum neysluflokkum. Það er þannig verið að mæla hvers meðalmaðurinn á höfuðborgarsvæðinu neytir miðað við meðalmann á landsbyggðinni. Þá benda þau á að það sé meiri neysla hjá þessum ímyndaða meðalmanni höfuðborgarsvæðisins. Þá segi ég á móti: Já augljóslega, þar sem tekjurnar eru almennt hærri á höfuðborgarsvæðinu. Þannig að það stendur ekki steinn yfir steini í þessum málflutningi.“

Konráð segir þó að Samtök atvinnulífsins geri sér alveg grein fyrir vandamálum á húsnæðismarkaðinum. „Við tökum að miklu leyti undir hvað varðar húsnæðismarkaðinn og erum sammála Eflingu og öðrum verkalýðsfélögum um að það þarf að byggja meira og byggja hraðar á höfuðborgarsvæðinu sem og á landinu öllu. En við getum samt ekki tekið undir það að það þurfi einhverja sérstaka framfærsluuppbót fyrir höfuðborgarsvæðið vegna þessa.“

Samantekt úr kynningu SA.
Samantekt úr kynningu SA. Graf/SA

Alþjóðlegt samhengi

Konráð segir að þegar litið sé til heimsbyggðarinnar sé einnig hægt að fá ákveðið samhengi.

„Það kæmi gestsauganu eflaust á óvart að það stefni í verkfallsaðgerðir hjá verkafólki þegar kaupmáttur verkafólks hefur sennilega hvergi í Evrópu aukist jafnmikið og hérlendis á síðustu árum. En það sem skiptir kannski mestu máli núna er það að í þessari þróun sem er búin að eiga sér stað úti í heimi, með hækkandi orkuverði og vaxandi verðbólgu, þá er Ísland nánast eins og eyland ásamt nokkrum fátækari ríkjum í austanverðri Evrópu, þar sem kaupmáttur hefur vaxið.

Á sama tíma er kaupmáttur að dragast saman um allt að 10% í öðrum ríkjum sem búa við svipuð lífskjör og við. Þannig að höfum staðið mjög vel að vígi og við teljum að það sé raunhæft að við getum haldið áfram að láta kaupmáttinn vaxa hjá þeim sem eru á lægstu töxtunum og helst aukið hann einnig hjá öðrum hópum. Miðað við síðustu mælingar er enn kaupmáttarvöxtur hjá verkafólki og þær tölur eiga líka við um félagsmenn Eflingar. Það er enn að gerast þrátt fyrir þessa miklu verðbólgu. Það er merkilegt og mjög ánægjulegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert