Eins og handleggur af himnum ofan

Norðurljósamynd Hallgríms.
Norðurljósamynd Hallgríms. Ljósmynd/Hallgrímur P. Helgason

„Þetta var bara tekið á símann á veröndinni hjá mér,“ segir Hallgrímur P. Helgason áhugaljósmyndari um norðurljósamynd sem hann tók í gærkvöldi sem hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum.

Á myndinni, sem var smellt af klukkan 23.22, virðist sem handleggur komi beina leið af himnum ofan og er ekki hægt annað að segja en að hún sé áhrifamikil.

Ljósmynd/Hallgrímur P. Helgason

„Draumastaður“

Hallgrímur býr neðan við gamla bæinn á Selfossi við Ölfusá og var myndin tekin þar á bak við hús. Hann segist horfa þaðan beint upp í Ingólfsfjallið, upp Hellisheiðina og sér næstum því Heklu í hina áttina. „Þetta er draumastaður fyrir ljósmyndadellukarl,“ segir hann og er að vonum ánægður með myndina.

Hann kveðst eiga 42 milljóna pixla myndavél en ákvað að nota hana ekki í gærkvöldi því honum fannst norðurljósin ekki nógu merkileg. „Þetta var með jpg á símann.“ 

Þessa norðurljósamynd tók Hallgrímur einnig í gærkvöldi.
Þessa norðurljósamynd tók Hallgrímur einnig í gærkvöldi. Ljósmynd/Hallgrímur P. Helgason

Að sögn Hallgríms hefur verið „merkileg norðurljósatíð“ síðan í haust og segist hann vera búinn að taka norðurljósamyndir rúmlega 60 nætur síðan 19. nóvember. Til að hægt sé að taka norðurljósamyndir segir hann mikilvægt að himinn sé heiðskír. Einnig nefnir hann að sólgosavirkni hafi verið meiri undanfarið en oft áður. 

„Þessi 11 ára norðurljósakúrfa nær samkvæmt öllum útreikningum toppi 2025. Við erum að stefna í meiri virkni heldur en hefur verið síðastliðin ár.“

Ljósmynd Hallgríms af rosabaugi frá 4. janúar kl. 1.04.
Ljósmynd Hallgríms af rosabaugi frá 4. janúar kl. 1.04. Ljósmynd/Hallgrímur P. Helgason

Venjulega hefur hann tekið norðurljósamyndir 20 til 40 nætur yfir veiturinn en núna sé þeim að fjölga. „Þessi ljósmyndadella er búin að vera viðvarandi síðan ég man eftir mér með myndavél þegar ég var sjö til átta ára að taka myndir,“ segir Hallgrímur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert