Leggjast varla svo lágt

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Halldór Benjamín Þorbergsson, formaður …
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Halldór Benjamín Þorbergsson, formaður SA, í baksýn síðastliðinn þriðjudag. mbl.is/Hákon

Samninganefnd Eflingar hittist seinna í dag til að halda vinnu sinni áfram við undirbúning verkfallsboðunar. Einhverjir dagar eru í að boðunin verður tilbúin.

„Það fer að styttast í að þetta sé tilbúið,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður stéttarfélagsins, í Silfrinu í morgun.

Eftir að boðunin verður tilbúin verður kosið um hana hjá félagsfólki.

Um 21 þúsunds manns eru félagsmenn í Eflingu og sagði Sólveig Anna að þeir muni ekki allir fara í verkfall. Sagði hún jafnframt að þeir hópar sem fara í verkfallið og sinna „því starfi sem þar um ræðir“ muni kjósa um verkfallið.

Engin símtöl borist

Fregnir hafa borist af því að margir félagsmenn séu uggandi yfir fyrirhuguðu verkfalli og íhugi jafnvel að ganga úr Eflingu og í önnur félög. Spurð hvort hún óttist að baklandið muni bregðast henni sagðist Sólveig Anna ekki gera það og nefndi að engin símtöl hafi borist félaginu varðandi óánægju félagsmanna.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði að kjarasamningar hafi náðst við 80 til 85 þúsund manns, þar með talið öll félög Starfsgreinasambandsins (SGS) nema Eflingu. Hann talaði um stefnumarkandi kjarasamninga og að SA hefði tekið því fagnandi ef Efling hefði gengið inn í samtalið við SGS.

Félagsmenn Eflingar hjá Ríkissáttasemjara.
Félagsmenn Eflingar hjá Ríkissáttasemjara. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann sagði vandann vera þann að ef SA féllist á nálgun Eflingar þyrftu samtökin að taka upp alla þá kjarasamninga sem gerðir hafa verið að undanförnu. SA gæti ekki undir nokkrum kringumstæðum „rofið trúnað við þá sem hafa skrifað undir kjarasamninga“ við samtökin. Talaði hann um skammtímasamninga, svokallaða aðfarasamninga, sem öll verkalýðsfélög hafi fallist á að sé málamiðlun þar til lengri samningar verða gerðir.

Alls enginn afleikur

Spurð hvort það sé afleikur hjá Eflingu að nota verkfallssjóð félagins á þessum tímapunkti sagði Sólveg Anna það „svo sannarlega“ ekki vera.

Varðandi umræðu um verkbönn atvinnurekenda sagði hún „ótrúlegt að fylgjast með þeim málflutningi að menn séu tilbúnir til að fara í sína digru sjóði, ekki til að greiða vinnuafli höfuðborgarsvæðisins þau laun sem þau þurfa til þess að komast af á heldur til þess að ráðast með eins svívirðilegum hætti að þeim grundvallarrétti vinnandi fólks í lýðræðissamfélagi um það að geta lagt niður störf til þess að ná fram betri kjörum“.

Sagðist hún ekki sjá fyrir sér að menn muni „leggjast svo lágt“.

SGS hafi snúið baki við Eflingu

Bætti hún við að öllum væri ljóst að SGS hafi snúið baki við Eflingu og ákveðið á óskiljanlegan hátt „að standa ekki með fólki í harðri kjaradeilu“. Þessi í stað hafi sambandið ráðist á fólkið og forystu þess með sífellt ýktari ásökunum.

Hún sagði það engu breyta um þá staðreynd að Efling sé risastórt félag vinnuafls höfuðborgarsvæðisins. „Við erum fólkið sem bókstaflega heldur hér öllu gangandi, sem knýr hér áfram hagvöxtinn,“ sagði Sólveig Anna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert