Áratugalöng hefð í uppnámi vegna haggis

Haggis er lykilatriði ef menn ætla sér að fagna afmæli …
Haggis er lykilatriði ef menn ætla sér að fagna afmæli Robert Burns, þjóðarskálds Skota.

Veisluhöldum Íslenska Edinborgarfélagsins sem haldin eru í janúar ár hvert til að fagna afmælisdegi Skoska skáldsins Robert Burns hefur verið aflýst sökum þess að ekki tókst að tryggja skoska þjóðréttinn haggis til að bera þar fram.

Dr. Björn Karlsson, prófessor við Háskóla Íslands, er einn af meðlimum Edinborgarfélagsins. Eftir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu hefur reynst erfitt að útvega haggis í ár sökum mikillar skriffinnsku sem kveðið er á um í lögum svo að leyfilegt sé að flytja það til landsins, en hann áætlar að þörf sé á um 70 kílógrömmum af haggis fyrir veisluhöldin.

Dr. Björn Karlsson, prófessor við Háskóla Íslands, segir að erfiðlega …
Dr. Björn Karlsson, prófessor við Háskóla Íslands, segir að erfiðlega hafi gengið að fá haggis frá Bretlandi eftir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Ljósmynd/Aðsend

Veisluhöld víðsvegar um heim

Að sögn hans gafst félagið upp við að fá réttinn fluttan frá Bretlandi til Íslands.

„Það eru tvær vikur í 28. janúar [þegar veislan fer fram]. Hugmynd okkar er að í næstu haustslátrun, því þú þarft t.a.m. að taka lungun úr sauðféinu sem eru ekki hirt á Íslandi af neinu ráði, verði haft samband við íslenskan aðila sem gæti treyst sér til að búa til íslenskt haggis. En það þarf að huga að því strax,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Haggis, sem unnið er úr lamba- og  nautakjöti, höfrum, lauk og kryddi, er lykilatriði veisluhaldanna að sögn Björns, en líkt og áður hefur verið nefnt eru þau haldin til að minnast Robert Burns, þjóðarskáld Skota, sem orti hundruð ljóða, þ.á.m. „Auld Lang Syne“ sem sungið er við áramót.

Eftir að Burns lést árið 1796 héldu því vinir hans veisluhalda til að heiðra minningu hans. Síðan þá hefur skapast hefð fyrir því víðsvegar um heiminn að efna til veisluhalda til að minnast skáldsins, en veisluhöldin eru gjarnan nefnd „Burns supper“ (í. kvöldverður Burns).

Björn segir þessa áratuga gömlu menningarhefð vera ótrúlega. „Þessi merki einstaklingur, fæddur árið 1759, var og er þekktasta skáld Skota. Og menn halda upp á afmæli hans víðsvegar um heiminn. Allsstaðar er haldið upp á afmæli Robert Burns, og þá verða menn náttúrlega að borða haggis. Og nú er það ekki hægt. Þetta er sárara en tárum taki. “

Robert Burns, þjóðarskáld Skota, orti hundruð ljóða, þ.á.m. „Auld Lang …
Robert Burns, þjóðarskáld Skota, orti hundruð ljóða, þ.á.m. „Auld Lang Syne“.

Klæðast gjarnan pilsum

Kvöldverður Burns fer fram með svipuðum hætti allsstaðar í heiminum.

„Veisluhöldin eru allsstaðar eins. Þú ert með „Address to the haggis“ þegar þú gengur inn með réttinn og ert með sekkjapípuleikara með þér. Svo eru haldnar ræður, s.s. „Address to the ladies“ og „Address to the laddies“. Svo er farið með ræðu til minningar Burns.

Svo eru mörg helstu lög Burns sungin. Þá klæðast menn pilsum ef þeir eiga þau. Það er bara mjög leiðinlegt að það var hægt að útvega haggis. En við höfum ekki gefist upp enn sem komið er en við ætlum að reyna að fá einhverja aðila hér á landi til að græja haggis fyrir okkur.“

Björn segir nágranna okkar á Norðurlöndum einnig hafa staðið í erfiðleikum við að útvega sér haggis fyrir veisluhöldin. Þeir hafa því gripið til þess ráðs að fá innlenda kjötgerðamenn til að útbúa réttinn í ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert