Kaldast á Þingvöllum

Það hefur verið töluverð kuldatíð á landinu undanfarna daga en frost mældist mest síðasta sólarhringinn á Þingvöllum, þar sem það fór niður í 20,8 stig. Þegar líða tók á daginn hlýnaði eilítið og fór hiti hér og þar yfir frostmark en mestur mældist hann í Borgarhöfn í Suðursveit eða 1,8 stig.

Að sögn Óla Þórs Árnasonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands, má búast við því að það hlýni á föstudag og verði hlýtt fram á miðjan laugardag en hann segir spár nokkuð samstíga um það.

„Hins vegar þegar líður á laugardaginn snýst í suðvestanátt og það kólnar með einhverjum éljagangi. Ef við förum aðeins fram úr okkur þá má jafnvel búast við hlýindum í fleiri samliggjandi daga eftir aðra helgi.“

Óli segir að það megi búast við leiðinda éljagangi fyrir norðan og austan á morgun og strekkingsvindi, sérstaklega allra austast. Hann segir að léttskýjað verði þó sunnan og vestan til og að búast megi við því að frost herði á ný, sérstaklega inn til landsins en það verði þó ekki mjög kalt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert