Hætt við að brotum fjölgi með núverandi fyrirkomulagi

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari kveður vinnu refsivörslukerfisins komna í ákveðinn …
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari kveður vinnu refsivörslukerfisins komna í ákveðinn vanda hafi refsingar ekki varnaðaráhrif. mbl.is/Ómar

„Það sem er útgangspunkturinn hjá okkur er að ef refsingar hafa ekki varnaðaráhrif er okkar vinna komin í ákveðinn vanda og til dæmis hætt við því að afbrotum fjölgi og við séum þá ekki alveg að ná þeim markmiðum sem að er stefnt.“

Þetta segir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari í samtali við mbl.is um stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á stöðu mála við innheimtu dómsekta sem embættið hóf að eigin frumkvæði í ársbyrjun í fyrra.

Leit Ríkisendurskoðun til þróunar málaflokksins frá árinu 2014 og kannaði innheimtuhlutfall dómsekta, hvort dómsmálaráðuneytið hefði brugðist við lágu innheimtuhlutfalli téðra sekta og þá með hvaða hætti. Eins gaumgæfði embættið skilvirkni og árangur fullnustukerfis dómsekta.

2,2 prósent gerð upp

Segir Ríkisendurskoðun í skýrslu sinni um úttektina að innheimtuhlutfall dómsekta hafi um árabil verið mun lægra en í öðrum norrænum ríkjum þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar embættisins allar götur frá 2009. Til dæmis hafi ekki reynst vilji til að lögfesta launaafdrátt vegna sektargreiðslna eða breyta fyrirkomulagi ólaunaðrar samfélagsþjónustu, algengasta fullnustuúrræðis vararefsinga.

Það tímabil sem úttekt Ríkisendurskoðunar nær til, 2014 til 2018, námu álagðar dómsektir yfir tíu milljónum samtals 5,7 milljörðum króna. Í árslok 2021 höfðu einungis 2,2 prósent þeirra verið gerð upp. Í samtals 41 prósenti tilvika var vararefsingu beitt og var hún í formi samfélagsþjónustu í 38,7 prósentum tilvika en fangelsisrefsingar í 2,3 prósentum.

Telur héraðssaksóknari samfélagsþjónustu í stað greiðslu sektar of vægt úrræði?

„Það er atriði sem ég tel vert að kanna en auðvitað er það þannig að sektardómar eða vararefsingar eða fangelsisdómar eiga að hafa áhrif,“ svarar Ólafur, „það að aðilar leiti í þetta miklum mæli í samfélagsþjónustuna bendir náttúrulega til þess að þeim þyki léttbærara að klára refsingarnar með því en með einhverjum öðrum hætti.“

Sendir núverandi fyrirkomulag rétt skilaboð?

Hann vekur athygli á umræðu sem tæpt er á í skýrslunni um að dómstólar dæmi brotamenn beinlínis til samfélagsþjónustu í stað þess að ákvörðun um slíka þjónustu sé í höndum Fangelsismálastofnunar. Kveður Ríkisendurskoðun eðlilegt að mælt sé fyrir um samfélagsþjónustu í almennum hegningarlögum og hún þá skilgreind sem refsing fremur en fullnustuúrræði eins og var í eldri lögum um fullnustu refsinga frá 2005 sem ný lög frá 2016 hafa nú leyst af hólmi.

Eitt þeirra álitamála sem rædd eru í skýrslu Ríkisendurskoðunar er …
Eitt þeirra álitamála sem rædd eru í skýrslu Ríkisendurskoðunar er hvort heppilegt fyrirkomulag sé að ákvörðun um samfélagsþjónustu sé í höndum dómara frekar en að sú ákvörðun komi til síðar í ferlinu. mbl.is/Ófeigur

Segir Ríkisendurskoðun þörf á að kanna hvort verið sé að senda rétt skilaboð með því að ákveðin brot séu fullnustuð að svo miklu leyti með samfélagsþjónustu.

„Þessi umræða hefur verið í gangi alveg frá því þetta úrræði var tekið upp,“ heldur Ólafur áfram og á við umræðuna um hvort ákvörðun um samfélagsþjónustu skuli tekin í dómsalnum. Aðspurður kveðst hann hallast að því að sú leið sé heppileg skipan mála. „Mér finnst eðlilegra að dómstólar mæli fyrir um þá refsingu sem á endanum verður sú sem aðilar þurfa að sæta og því sé ekki breytt í verulegum atriðum þegar lengra er komið í ferlinu,“ segir hann.

Kemur héraðssaksóknari að lokum auga á leiðir til úrbóta í fljótu bragði?

„Á það er bent mjög sterkt í þessari skýrslu að það sé ekki mikið verið að beita vararefsingunni sjálfri. Ég held að töluvert bit sé í henni og þurfi með einhverjum hætti að gera það mögulegt að beita vararefsingu þegar það á við frekar en að refsingin falli niður fyrir fyrningar sakir,“ segir Ólafur.

Innheimta sem taka þarf föstum tökum

Bendir hann á áform frá 2019 sem tíunduð séu í skýrslunni um ákveðinn fjölda fangelsisrýma sem hægt sé að nota til afplánunar vararefsingar. „Jafnframt kemur fram að horfið hafi verið frá því tiltölulega fljótlega. En það er alveg ljóst að það er ákveðinn hópur sem vill losna undan því að fara inn og afplána vararefsinguna og reynir þá allt til að greiða sig út eða gera greiðslusamninga. Það vantar svolítið úrræðin til að knýja á um að sektir séu greiddar,“ segir saksóknari.

Ríkisendurskoðun setur fram níu leiðir til úrbóta í skýrslu sinni og telur Ólafur margar þeirra góðra gjalda verðar og líklegar til að bæta innheimtu dómsekta. „Þessi innheimta er þannig að það þarf að vinna mjög stíft í henni og knýja fast á til að hún gangi. Aðalatriðið er að menn sitji ekki með hendur í skauti heldur aðhafist í þessum málaflokki,“ segir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari að skilnaði.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert