Orðræðan um Dóru kunnuglegt stef

Stjórn WIFT, félags kvenna í kvikmynda- og sjónvarpsgerð á Íslandi.
Stjórn WIFT, félags kvenna í kvikmynda- og sjónvarpsgerð á Íslandi. Ljósmynd/WIFT

Orðræðan sem fór af stað um Dóru Jóhannsdóttur, leikstjóra Áramótaskaupsins, er kunnuglegt stef enda er orðræðan um erfiðu konuna í leikstjórastól eða öðrum störfum í kvikmyndum og sjónvarpi vel þekkt á heimsvísu, að því er fram kemur í stuðningsyfirlýsingu frá Samtökum kvenna í sjónvarpi og kvikmyndum (WIFT) á Íslandi.

Áramótaskaupið 2022 var frumraun Dóru í leikstjórasætinu í kvikmyndagerð og hlaut það afbragðsgóðar viðtökur. Þrátt fyrir það er ekki þar með að segja að framleiðsla þess hafi gengið klakklaust fyrir sig en eins og Heimildin greindi frá kvartaði Dóra undan framgöngu framleiðslufyrirtækisins S800, sem gerði skaupið, til Rúv.

Hættu samskiptum eftir að spurningar bárust

Í skýrslu sem Dóra sendi á Rúv kemur fram að framleiðendur Skaupsins hafi hætt vinnu við verkið þegar það var enn óklárað. Að sögn Dóru gerðist það í kjölfar þess að fyrirtækinu bárust spurningar sem sneru m.a. að eignarhaldi þess, duldum auglýsingum og fjárhagsáætlun.

Sigurjón Kjartansson, yfirframleiðandi Skaupsins, sagði í samtali við Heimildina að Dóra og framleiðandi Skaupsins hefðu átt í erfiðum samskiptum.

Þá er einnig haft eftir Dóru í umfjölluninni að Sigurjón hafi sagt við hana að framleiðandinn og aðstoðarleikstjórinn hefðu hætt samskiptum við hana vegna þess að þeir hefðu lýst því að það væri erfitt að vinna með henni.

Óska eftir reynslusögum

Samtökin WIFT óska nú eftir reynslusögum kvenna sem hafa lent í svipuðum aðstæðum og mun í kjölfarið skoða hvernig staðan er á þessum málum í iðnaðinum. Óskað er eftir að sögurnar verði sendar á netfangið erfid2023@gmail.com.

Með þessu vill WIFT stuðla að því að komið sé fram við konur, sem og aðra, í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðinum af sanngirni og virðingu, að því er fram kemur í yfirlýsingunni.

Konur í kvikmyndum hafa lengi þurft að hafa mikið fyrir því að fá pláss, læra að taka pláss og svo að halda plássinu sínu. WIFT hefur frá stofnun beitt sér fyrir bættum hlut kvenna í kvikmyndaiðnaðinum og veitt íslenskum kvikmyndaiðnaði og stjórnvöldum aðhald.  Enda mikið í húfi í baráttunni fyrir jöfnuði í iðnaðinum og samfélaginu. Orð skipta máli, að nota vald skiptir máli, hver segir sögurnar okkar skiptir máli,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert