„Kemst ég um Austurland í mars á næsta ári?“

Fundargestir hlýða á erindi á fundinum í morgun sem einnig …
Fundargestir hlýða á erindi á fundinum í morgun sem einnig var streymt á lýðnetinu og boðið upp á rafrænar fyrirspurnir. mbl.is/Árni Sæberg

Þjónustustöðvar og vaktstöð Vegagerðarinnar var meðal þess sem kynnt var á upplýsingafundi Vegagerðarinnar, „Hvernig þjónum við vegfarendum á veturna?“, sem haldinn var í morgun með innanbúðarmenn og gesti sem frummælendur.

„Á undanförnum árum hefur mikið gerst í íslensku samfélagi sem í sífellu kallar á aukna þjónustu og það er eitt af því sem við höfum upplifað undanfarnar vikur,“ sagði Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, í setningarávarpi sínu á fundinum.

„Stöðugt er kallað eftir aukinni þjónustu við vegakerfið að vetri. Atvinnusókn á landsbyggðinni hefur breyst og fólk sækir í meiri mæli vinnu milli bæjarfélaga. Þessi samfélagsbreyting kallar á aukna þjónustu við vegakerfið. Miklu skiptir einnig að afurðir og vörur komist klakklaust milli landshluta, þrátt fyrir hálku og fannfergi. Aukinni áherslu á vetrarferðamennsku fylgja einnig nýjar áskoranir,“ segir í kynningu á fundinum í fréttatilkynningu.

Á vaktinni

Að loknu ávarpi sínu bauð Bergþóra G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar, velkominn í pontu en í kjölfarið tóku tveir forstöðumenn Vegagerðarinnar og tveir gestir fundarins, fulltrúar Teits Jónassonar og Hertz, til máls.

G. Pétur kynnti fyrirkomulag fundarins, sem streymt var á lýðnetinu, og gafst áhorfendum færi á að skrá sig inn á vefsíðu og leggja fram spurningar til frummælenda. Þá tók Árni Gísli Árnason, forstöðumaður vöktunar og upplýsinga hjá Vegagerðinni, til máls undir liðnum „Á vaktinni“ þar sem hann fór yfir starfsemi vaktstöðvar Vegagerðarinnar, símaþjónustuna 1777 og tengsl þessara fyrirbæra við vetrarþjónustu.

Ekki er vanþörf á að þekkja ástand þjóðvega landsins áður …
Ekki er vanþörf á að þekkja ástand þjóðvega landsins áður en lagt er í hann. Hellisheiði lokuð í febrúar í fyrra. Ljósmynd/Vegagerðin

„Við erum með 18 þjónustustöðvar hringinn í kringum landið, vaktstöð er svo í góðum samskiptum við þessar þjónustustöðvar og vaktstöðin er á tveimur stöðum, í Garðabæ og á Ísafirði,“ sagði Árni Gísli frá. Útibúið í Garðabæ hefði suðvesturhorn landsins á sinni könnu en á Ísafirði væri fylgst með öðrum landshlutum.

Hvernig verður færðin eftir ár?

Kynnti Árni Gísli símanúmerið 1777 sem opið er frá klukkan 06:30 til 22:00 alla daga að vetrarlagi. Starfa þar níu manns við að svara vegfarendum og veita þeim upplýsingar um færð og ástand vega auk þess að svara tölvupósti og erindum af samfélagsmiðlum. Þá byði nýi upplýsingavefurinn umferdin.is einnig upp á gnótt fróðleiks um vegi landsins.

Árni Gísli Árnason kynnir starfsemi síns samstarfsfólks í vöktun og …
Árni Gísli Árnason kynnir starfsemi síns samstarfsfólks í vöktun og upplýsingum. Ljósmynd/Vegagerðin

Nefndi Árni Gísli dæmi um ýmis erindi, svo sem ferðamenn sem hygðust heimsækja landið eftir ár og leigja bíl. „Hvernig verður færðin eftir ár, kemst ég ekki örugglega um Austurlandið í mars á næsta ári? Auðvitað er erfitt að segja til um það og við hvetjum þá fólk bara til að fylgjast vel með upplýsingum frá okkur. Margir eru mjög vel undirbúnir,“ sagði forstöðumaðurinn frá.

Þá kynnti hann SMS-viðvaranir og vinnu við undanþágubeiðnir frá Samgöngustofu. Fyrir utan vetrarþjónustu væru helstu verkefni vaktstöðvanna að vakta jarðgöng, skrá upplýsingar á ferðakort Vegagerðarinnar og vera í samskiptum við viðbragðsaðila þegar á þyrfti að halda, svo sem vegna flóða og skriðufalla.

Miðlun raunupplýsinga um aðstæður á veghlutum

Hlutverk vaktstöðvar í vetrarþjónustu væri þó hve margþættast, svo sem hvað samhæfingu aðgerða snerti. Vaktstöð væri í góðu sambandi við veðurfræðing Vegagerðarinnar og Veðurstofu Íslands við að meta aðstæður auk þess að senda eftirlitsmenn á vettvang þegar þörf krefði.

„Við berum ábyrgð á að miðla raunupplýsingum um aðstæður á veghlutum til vegfarenda sem getur verið krefjandi þar sem við getum ekki verið á öllum stöðum á sama tíma. Þeim upplýsingum miðlum við gegnum 1777 og umferdin.is og gerum það með því að fá upplýsingar frá eftirlitsmönnum okkar og verktökum sem eru á staðnum,“ útskýrði Árni Gísli.

Fylgst væri með vegum gegnum myndavélar, hvort tveggja í bifreiðum á vegum Vegagerðarinnar eða fastar myndavélar við vegi auk þess sem mælibúnaður fylgdist með yfirborðsástandi vega og boðunarkerfi boðaði verktaka á þá staði sem þörf væri á, svo sem til að moka eða dreifa salti á vegi.

Þá kynnti Árni Gísli viðbragðsáætlanir fyrir vegi og veghluta þegar í óefni stefndi, þar kæmi meðal annars fram hvernig upplýsingamiðlun skyldi eiga sér stað og hvaða viðbragðsaðilar til kallaðir, til dæmis væru samningar við fjölda björgunarsveita í gildi og notaði Árni Gísli tækifærið til að færa þeim þakkir fyrir vinnuframlag í vályndum veðrum síðustu vikna.

Veðurspár eru eitt...

Ræddi hann enn fremur upplýsingar á erlendum tungum og mikilvægi þess að þar væru ekki miklar textalanglokur heldur miðuðust boðskiptin við að koma allra nauðsynlegustu upplýsingum fljótt til ferðamanna sem ef til vill væru óvanir íslenskum aðstæðum.

Af helstu áskorunum nefndi Árni Gísli spurninguna um hvernig Vegagerðin gæti miðlað betur. „Hvernig getum við náð að halda betur utan um það raunástand sem er í gangi á hverjum tíma því við vitum auðvitað að veðurspár eru eitt en það sem svo rætist getur mögulega verið annað, bæði getur veður orðið verra eða betra. Hvernig getum við miðlað því sem best?“ spurði Árni Gísli og velti upp ýmsum möguleikum og ekki síður hvernig koma mætti mikilvægum upplýsingum til skila á fleiri tungumálum.

Flestir ferðamenn á landinu notuðu leiðsöguforrit og væri Vegagerðin að þróa aðferðir til að koma upplýsingum þangað á sem skilvirkastan hátt sem gengið hefði allvel þrátt fyrir að einhver verkefni væru óunnin á þeim vettvangi.

Lauk Árni Gísli máli sínu með því að hvetja áhorfendur til að skoða upplýsingavefinn umferdin.is og kynna sér þá möguleika sem hann byði upp á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert