„Það má ekkert út af bregða“

Ásmundur Friðriksson í þingsal.
Ásmundur Friðriksson í þingsal. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Suðurkjördæmis, segist þekkja til fyrirtækja sem hafi hætt við að starfa á Suðurnesjum þar sem ekki hafi verið hægt að lofa rafmagni. 

Eins og fram hefur komið á Suðurnesjalína 1 erfitt með að afhenta meiri raforku en orðið er. 

„Línan er að eldast og álagið á henni er mjög mikið í flutningum. Ég held að hún sé full lestuð alla daga og það má ekkert út af bregða,“ segir Ásmundur og hann veltir því fyrir sér hvort ekki hefði getað orðið tjón á fasteignum hjá fólki ef tafist hefði lengur að koma kerfinu aftur í gang eftir að rafmagnið datt út á Suðurneskjum á mánudag sem og heita vatnið. 

„Þarna eru mjög mikilvægir innviðir í húfi eins og flugvöllurinn, virkjanir, landeldi og ýmis konar starfsemi. Þetta var áfall enda hlutir eins og dæling á heitu og köldu vatni eru hlutir sem við getum ekki verið án. Ef það hefði tekið lengri tíma að koma þessu í lag, í þessum mikla og þunga frostakafla sem er núna, þá hefði þetta getað farið svakalega illa með hitaveitu og pípulögn í mörgum húsum. Það er því ýmislegt í þessu sem snertir einstaklingana og menn þurfa að velta því fyrir sér.“

Umræðan hófst fyrir aldamót

Ásmundur hefur látið sig framkvæmd Suðurnesjalínu 2 varða í þinginu. Hann bendir á að hugmyndir um þá framkvæmd hafi verið afskaplega lengi í umræðunni. 

„Árið 2006 var lagt af stað með Suðurnesjalínu 2. Í mörg ár þar á undan hafði verið rætt á stjórnarfundum hjá Hitaveitu Suðurnesja um aukinn flutning og aukið öryggi inn á svæðið. Umræðan nær því aftur til áranna fyrir aldamótin 2000,“ segir Ásmundur og bendir á áhrifin sem skortur á afhendingargetu raforku getur haft á framtíðaruppbyggingu.

„Í mínum huga eru stóru atriðin öryggisþátturinn og svo atvinnusköpunin sem hlýst af aukinni afkastagetu línunnar. Atvinnulífið byggist ekki upp ef það fæst ekki rafmagn. Mér er bara vel kunnugt um fyrirtæki sem hafa sóst eftir því að flytja sig í Vogana enda er Vogar frábærlega staðsett sveitarfélag. En þessi fyrirtæki hafa hætt við þar sem sveitarfélagið og Landsnet segjast ekki geta tryggt þeim rafmagn. Hér er því um mikla hagsmuni að ræða í atvinnulífinu, bæði fyrir sveitarfélög og þjóðarhag,“ segir Ásmundur í samtali við mbl.is. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert