Konur áttu að bíta á jaxlinn og harka af sér

Steinunn segist hafa ólæknandi áhuga á breytingaskeiðinu sem hún hefur …
Steinunn segist hafa ólæknandi áhuga á breytingaskeiðinu sem hún hefur verið að kynna sér í yfir tíu ár. Ljósmynd/Aðsend

Mikil vitundarvakning og umbylting hefur átt sér stað í umræðu og fræðslu um breytingaskeið kvenna á síðustu árum, sem og meðferð til bæta lífsgæði kvenna á þessu tímabili í lífi þeirra, sem getur reynst mörgum erfitt. 

Vitundarvakning á meðal heilbrigðisstarfsfólks er ekki síður mikilvæg þar sem konur á breytingaskeiðinu ganga oft á milli lækna með einkenni sem skerða lífsgæði þeirra, en eru gjarnan ranglega greindar með kvíða og þunglyndi.

Konur hrópuðu eftir fræðslu, ráðgjöf og stuðningi

Steinunn Zophoníasdóttir, ljósmóðir hjá kvenheilsu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins  og stjórnarmeðlimur Feimu, fræðslufélags um breytingaskeið kvenna, telur að sýn kvenna á breytingaskeiðið sé að breytast og vitundarvakningin geri það að verkum að konur tali meira saman um þessi mál en áður. Þó sumar upplifi breytingaskeiðið vissulega sem neikvæð tímamót og áminningu um hækkandi aldur. En á Facebook má til dæmis finna hópinn Breytingaskeiðið sem eru í um 12.500 konur.

Sjálf hefur Steinunn verið að kynna sér breytingaskeiðið í yfir áratug. Hún segist í raun hafa „ólæknandi áhuga“ á breytingaskeiðinu og skrifaði meistararitgerð í ljósmæðrafræði um breytingaskeiðið sem hún lauk við árið 2020. 

„Í rauninni var þetta ennþá svo mikið tabú þá og hormónar taldir hættulegir. Enginn var að tala um þetta. Það var ekkert opinbert fræðsluefni til um breytingaskeiðið á þeim tíma og konur hrópuðu eftir fræðslu, ráðgjöf, þjónustu, stuðningi og skilningi,“ segir Steinunn í samtali við mbl.is.

„Rokkstjarna“ í breytingaskeiðsheiminum 

Útfrá því voru grasrótarsamtökin Feima stofnuð af fimm konum, sem leiddi svo meðal annars til þess að stofnuð var kvenheilsumóttaka á heilsugæslunni þar sem fer fram fræðsla um breytingaskeiðið. Þá má nú finna inni á heilsuveru fyrsta opinbera fræðsluefnið um breytingaskeiðið. Margt hefur því breyst á mjög skömmum tíma, að sögn Steinunnar. 

Þær sem standa að Feimu hafa lengi átt sér þann draum að halda stóran viðburð þar sem umræða um breytingaskeið kvenna er í hávegum höfð. Sá draumur er nú að verða að veruleika því í dag, fimmtudaginn, 19. janúar, verður haldið málþing í Silfurbergi, undir yfirskriftinni Breytingaskeiðið: Ósköpin öll, í Hörpu í tengslum við Læknadaga.

Aðalfyrirlesari málþingsins er Dr. Louise Newson, sem Steinunn segir vera algjöra „rokkstjörnu“ í breytingaskeiðsheiminum. Newson er brautryðjandi í málefnum breytingaskeiðsins í Bretlandi þar sem hún rekur víða móttökur fyrir konur á breytingaskeiði. Þá á hún mikinn þátt í þeirri vitundarvakningu sem orðið hefur um málefnið undanfarin ár, bæði í Evrópu og á Íslandi. 

Allt að þriðjungur kvenna fer illa í gegnum breytingaskeiðið, að …
Allt að þriðjungur kvenna fer illa í gegnum breytingaskeiðið, að sögn Steinunnar. Ljósmynd/Colourbox

Getur kollvarpað lífi kvenna 

Konur eru um helmingur mannkyns þannig málefnið varðar ansi stóran hóp. Breytingaskeiðið varir að meðaltali í fimm til sjö ár en jafnvel upp í tíu ár og getur því haft áhrif á líf kvenna í langan tíma.

„Þetta getur lagst mjög þungt á sumar konur. Það er um þriðjungur eða fjórðungur kvenna sem fer mjög illa í gegnum breytingaskeiðið. Sem upplifa mikil einkenni sem hafa áhrif á daglegt líf og lífsgæði. Þetta kemur aftan að konum og getur kollvarpað lífi þeirra. Það er því svo mikilvægt að við vitum hvað er að gerast í líkamanum okkar og hvaða áhrif það hefur, ekki bara líkamleg einkenni, heldur líka andleg og geðsleg og hvernig við getum hjálpað okkur. Hvernig okkur getur liðið betur,“ segir Steinunn.

„Við þurfum að tala um þetta við maka okkar, börnin okkar og í vinnunni. Vinnustaðir og atvinnurekendur þurfa að taka tillit til þess líka og vita hvað er í gangi í lífi kvenna. Það er svo margt sem fer á hvolf á þessum tíma. Við erum útsettari fyrir streitu, við sofum oft verr og líður illa á svo margan hátt. Við erum í meiri hættu á að fara í kulnun og Virk er að rannsaka það.“

Flestar konur geti bætt lífsgæði sín

Steinunn segir það mjög einstaklingsbundið hvernig konur upplifa breytingaskeiðið, hvort þær þurfi á einhverri meðferð að halda og hvort hún virki. Flestar konur geti þó bætt líf sitt á þessu tímabili með því að staldra við og gefa einkennunum gaum. 

„Lífstíllinn skiptir alltaf rosalegu máli, hvernig við nærum okkur, hreyfum okkur, sofum og minnkum streitu. Það eru þessir fjórir þættir. Svo getur hormónameðferð reynst mjög gagnleg fyrir konur á þessu skeiði, sem þurfa á því að halda.“

Mjög neikvæð umræða hefur átt sér stað um hormóna á síðustu tuttugu árum að sögn Steinunnar. Læknar hafi verið fráhverfir við að skrifa upp á og konur hræddar við að nota þá. „Þetta var beintengt við brjóstakrabbameinsáhættu og hjarta- og æðasjúkdóma. Konur áttu helst ekki að nota hormóna, bara bíta á jaxlinn og harka þetta af sér.“

Konur rændar góðri meðferð

Samhliða vitundarvakningu hafi hins vegar afstaða til öruggrar hormónameðferðar breyst og hún nýst mörgum konum sem hafi upplifað skert lífsgæði á breytingaskeiðinu.

„Það má eiginlega segja að konur hafi verið rændar góðri meðferð á þessu tímabili. Margar voru óheppnar að ganga í gegnum breytingaskeiðið á þeim tíma sem hormónar voru taldir svona hættulegir. Það er önnur sýn núna á hormónameðferð.“

Steinunn segir konur oft ganga á milli lækna með einkenni sem geti bent til að breytingaskeiðið sé hafið, en þeir átti sig ekki alltaf á að einkennin geti verið jafn víðtæk og raun ber vitni. Konur séu því oft ranglega greindar, meðal annars með þunglyndi og kvíða.

„Oft er talað um að ef þú ert ennþá á blæðingum og ert ekki með hita- og svitakóf, þá ertu ekki á breytingarskeiðinu. Jafnvel yngri konur sem eru komnar á breytingaskeiðið, kannski snemmbært, þá er kannski ekki alltaf kveikt á perunni.“ 

Þurfa að fara hnarreistar í gegnum tímabilið

„Þessi vitundarvakning hún er að hluta til líka til að konur geti vitað hver einkennin eru, hvað gerist í líkama þeirra, svo þær geti sjálfar verið varar við þetta og séu kannski ekki settar á þunglyndislyf við þunglyndi og kvíða sem hjálpa þeim ekki því það er hormónskortur í grunninn sem er að hrjá þær. Eða þær fá gigtarlyf eða eitthvað slíkt. Það þarf alltaf að fara í rótina og taka allt inn í myndina. Það getur líka verið margt annað, það getur verið kulnun. Það er ofboðslega margt sem sem svipar til með kulnun og breytingaskeiði og vefjagigt og breytingaskeiði og einmitt þunglyndi og fleira. Þannig maður þarf alltaf að reyna að finna hver er ástæðan og meðhöndla það þannig,” segir Steinunn. 

„Þannig það þarf líka vitundarvakningu á meðal heilbrigðisstarfsfólks og það er akkúrat það sem verið er að vinna í bæði hér og erlendis,“ bætir hún við.

Breytingaskeiðið á ekki að vera tabú að sögn Steinunnar, eða áminning um hækkandi aldur. „Þetta þarf ekki að vera merki um að þú sért að eldast. Þetta er bara ákveðið tímabil sem við förum í gegnum. Við þurfum að fara svolítið hnarreistar í gegnum það - með reisn. Vera stoltar af því að eldast og ganga í gegnum þetta. Það er nýtt skeið að hefjast sem getur verið mjög spennandi.“

Málþingið í Silfurbergi er opið öllum á meðan húsrúm leyfir, en einnig er hægt að fylgjast með í streymi. Sjá link að hér að neðan.

Hér má nálgast upplýsingar um málþingið

Ráðstefnan á Facebook

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert