Laun verkafólks á Akureyri hærri en í Reykjavík

Samkvæmt kjarakönnunum eru laun verkafólks á Akureyri hærri en kolleganna …
Samkvæmt kjarakönnunum eru laun verkafólks á Akureyri hærri en kolleganna á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Hákon

Dagvinnu- og heildarlaun verkafólks á Akureyri eru hærri en verkafólks á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt kjarakönnun Gallup fyrir Einingu-Iðju á Akureyri og sambærilegri könnun fyrir Eflingu á höfuðborgarsvæðinu. Heildarlaunin verkafólks á Akureyri eru um 21 þúsund krónum hærri en kollega þeirra á höfuðborgarsvæðinu, að segir í tilkynningu frá Eflingu.

Þrátt fyrir það sé meðallengd vinnuvikunnar lengri hjá Eflingarfólki heldur en hjá Einingu-Iðju. En Eflingarfólk vinni að jafnaði 45,7 klukkutíma á viku á meðan vinnuvikan hjá Einingu-Iðju sé um 44 klukkutímar.

Tekið er fram að báðar kannanir hafi verið framkvæmdar síðasta haust, áður en nýir kjarasamningar voru samþykktir. Þær hafið verið framkvæmdar á svipaðan hátt og ættu því að vera sambærilegar.

Krafa um framfærsluuppbót jafnvel of lítil

Efling hefur fært þau rök fyrir því að félagið geti ekki samþykkt sömu hækkanir og SGS samdi um við SA fyrir jól, að dýrara sé að búa og lifa á höfuðborgarsvæðinu heldur en á landsbyggðinni og að taka verði tillit sérstöðu Eflingarfólks við gerð nýs kjarasamnings.

„Kjarastaða Eflingarfólks einkennist af því, að það býr við mun meiri húsnæðiskostnað en annars staðar þekkist á landinu og hefur lægri laun en sambærilegur hópur á Akureyrarsvæðinu – þrátt fyrir að vinnuvika Eflingarfólks sé hátt í tveimur tímum lengri að jafnaði. Það er því augljóslega mun erfiðara fyrir félagsmenn Eflingar að ná endum saman á sínu vinnusvæði,“ segir í tilkynningunni.

Í ljósi þessa munar á heildarlaunum og mikils munar á húsnæðiskostnaði sé krafa Eflingar um nýja launatöflu og sérstaka framfærsluuppbót upp á 15 þúsund krónur mjög hófleg, ef ekki of lítil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert