Gat ekki labbað upp smá brekku

​Sigurður Arnarson glímir við eftirköst Covid og sér ekki fyrir …
​Sigurður Arnarson glímir við eftirköst Covid og sér ekki fyrir endann á því. Hér má sjá hann með barnabarni og litlum nafna, Sigurði.

Á Heilsustofnuninni í Hveragerði nær blaðamaður tali af manni á miðjum aldri sem þar nú dvelur með þá von í brjósti að ná heilsu. Sigurður Arnarson fékk Covid þann 11. mars síðastliðinn og þrátt fyrir þrjár bólusetningar lagðist hann í slæma flensu. Sigurður, sem er kennaramenntaður garðyrkjumaður á Akureyri, beið rólegur eftir að ná bata og komast aftur til vinnu. 

„Ég man ég hugsaði þegar ég var að stíga upp úr flensunni að það væri nú gott að þetta hefði ekki verið verra,“ segir Sigurður, sem þá óraði ekki fyrir því sem fram undan var.

Klárlega með ME-sjúkdóminn

„Þegar ég var hitalaus dreif ég mig í vinnuna, þó ég væri enn slappur, en sá fljótt að ég gat það ekki. Ég mætti alltaf og reyndi eins og ég gat en ég var þreyttur og orkulítill. Ég gat ekki labbað upp smá brekku eða örfáar tröppur án þess að verða alveg búinn á því,“ segir Sigurður.

„Dagarnir síðan hafa verið misjafnir. Ef ég reyni eitthvað á mig verð ég verri. Ég vissi ekki þá en veit núna að ég er með langvarandi Covid,“ segir Sigurður og segir enn langt í land. 

„Ég veit ekki hvað tekur við. Læknar segja að ég sé klárlega með þennan sjúkdóm sem er kallaður ME. Ég sé það sjálfur að ég haka þar í nánast öll box. Auðvitað vonast ég til að komast aftur til vinnu og ég vil ekki vera byrði á þeim sem eru næstir mér. Bara við það að fara í sturtu, fer púlsinn yfir hundrað.“

Ítarlegt viðtal er við Sigurð í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert