Lægri þröskuldar inn í hælisleitendakerfið en annars staðar

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins, spurði Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag hvort búast mætti við einhverjum raunverulegum lausnum á málefnum hælisleitenda sem Sigmundur Davíð lýsir sem stjórnlausum.

„Nú þegar aðsókn í hæli á Íslandi er komið umfram það sem innviðir samfélagsins þola, eins og ríkislögreglustjóri hefur varað við, og Ísland rekur hratt frá hinum norðurlöndunum hvað stefnu varðar og aðsóknin hér er orðin hlutfallega margfalt meiri en þar.

Getum við átt von á því, og ég spyr leiðtoga stærsta ríkisstjórnarflokksins, að fljótlega birtast einhverjar raunverulegar lausnir frá ríkisstjórninni til að taka á þennan vanda.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mikill kostnaðarauki vegna málaflokksins

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, svaraði framangreindu á þann veg að hann liti þannig á að ráðherrann ætti í raun og veru að spyrja þingið hvort það sé von á einhverju.

„Vegna þess að málið sem liggur fyrir þinginu er marglagt fram og hefur tekið breytingum í samræmi við athugasemdir og meðferð í nefndum. Og er ekki að koma í fyrsta sinn, ekki í annað sinn og ekki í þriðja sinn það hefur komið oftar en það,“ sagði Bjarni.

Ráðherra bætti við að málaflokkurinn sé búinn að leiða til mikils kostnaðarauka og að það sé ástæða til að taka því alvarlega að hér á landi séu lægri þröskuldar inn í hælisleitendakerfið en annars staðar.

„Vegna þess að af því marki sem það er að valda auknu álagi á kerfið okkar þá er það gerast í dag á tíma þar sem að leikskólar eru fullir og það er ástand á húsnæðismarkaði, það er ekki mikið húsnæði til.“

Sagðist fjármálaráðherra eiga skilið að fá svör frá þinginu hvort það ætti ekki að fara að afgreiða eitthvað af þeim tillögum sem hefðu verið lagðar fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert