Flestir myndu tapa á verkfallsstyrk

Kosning um boðun verkfalla á Íslandshótelum er hafin.
Kosning um boðun verkfalla á Íslandshótelum er hafin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Greiddur verkfallsstyrkur úr vinnudeilusjóði Eflingar mun nema 23.500 krónum á dag, verði verkfall þjónustufólks hjá Íslandshótelum samþykkt. 

Upphæðin miðast við að styrkþegi sé í fullu starfi. Styrkurinn myndi þannig nema 117.500 krónum á viku eða 509 þúsund krónum á mánuði. 

Tekinn er fullur skattur af verkfallsstyrk en þar sem þetta er styrkur þá er ekki greitt orlof til viðbótar eða mótframlag í lífeyrissjóð.

Starfsmaður með 509 þúsund krónur í heildarlaun, með lágmarksorlof, vinnur sér inn 51.765 króna orlofsgreiðslu í mánuði hverjum og mótframlag atvinnurekanda í lífeyrissjóð upp á 64.488 krónur.

Hópur Eflingarfólks fundaði um Íslandshótel á sunnudagskvöld, eins og mbl.is …
Hópur Eflingarfólks fundaði um Íslandshótel á sunnudagskvöld, eins og mbl.is greindi fyrst frá. mbl.is/Óttar Geirsson

Algeng heildarlaun um 600 þúsund

Standi verkfall í heilan mánuð, verður starfsmaðurinn af 116 þúsund krónum. Standi verkfall í hálfan mánuð næmi greiðsla frá atvinnurekanda 312.626 krónum og verkfallsstyrkur 254.500 krónum, samtals 567.126 krónur.

Tap starfsmanns, með heildarlaun upp á 509 þúsund, á hálfs mánaðar verkfalli næmi því 58.127 krónum.

Samkvæmt heimildum mbl.is er tíðasta gildi heildarlauna, hjá þernum hjá Íslandshótelum, um 600 þúsund krónur á mánuði. 

Þá staðfesti Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, í samtali við mbl.is fyrr í dag að verkfallsstyrkurinn væri lægri en laun almennt hjá störfum þerna, fyrir hvern unninn dag. 

Sólveig svarar ekki 

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir undanfarna sólarhringa hefur ekki náðst í Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar, við vinnslu frétta um möguleg verkföll. Þá hefur einnig ítrekað verið reynt að ná í Viðar Þorsteinsson, fræðslu- og félagsmálastjóra. 

Perla Ösp Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Eflingar, svaraði viðtalsbeiðni skriflega á þá leið að Sólveig Anna sæi um viðtöl fyrir hönd Eflingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert