„Maður sér ekki annað en að vöxtur sé í kortunum“

Sigurður Hannesson (t.h.) ræðir við Einar Þorsteinsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, ræðast …
Sigurður Hannesson (t.h.) ræðir við Einar Þorsteinsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, ræðast við á fundinum, en Einar kynnti á fundinum áætlanir borgarinnar á komandi ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir að árið í byggingariðnaðinum líti betur út en menn hafi haldið fyrir fram. Stefnt er á fjölda stórra útboða á árinu og gætu næstu ár orðið þétt skipuð hjá verktökum landsins. Kemur það ofan í miklar framkvæmdir sem boðaðar hafa verið á fasteignamarkaði þar sem stefnan er að koma fleiri en þrjú þúsund íbúðum á markað árlega. Sigurður segir stöðuna þó ekki til marks um að verið sé að stíga of fast á bensíngjöfina á tímum þegar verðbólga er skæð, heldur sé verið að fjárfesta til framtíðar.

Í dag á Útboðsþingi samtakanna fór fram kynning á þessum fyrirhuguðu útboðum og öðrum tilheyrandi framkvæmdum sem ríkið, sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og opinber fyrirtæki stefna á á þessu ári. Þrátt fyrir að ríki og Reykjavíkurborg séu að draga aðeins saman seglin í fjárfestingum og þrátt fyrir umtalsverða verðbólgu stefnir í stór fjárfestingaár þegar allt er tekið saman. Sérstaklega er mikil aukning þegar kemur að fyrirhuguðum útboðum, en miðað við áætlanir þessara aðila gætu framkvæmdir fyrir 173 milljarða farið í útboð á árinu samanborið við 108 milljarða sem áætlað var að fara með af stað í ársbyrjun í fyrra. Munar þar um 60% á milli ára. Nánar má lesa um heildartölurnar og breytingar á milli ára í fyrri frétt mbl.is.

„Kemur ánægjulega á óvart“

„Þetta lítur betur út en við héldum fyrir fram,“ segir Sigurður við mbl.is. „Maður óttaðist að fjárfestingar væru að dragast saman þannig að það kemur ánægjulega á óvart að raunin sé þveröfug.“ Hann segir miklu muna um stór verkefni eins og Landsvirkjun hafi tilkynnt að til standi að bjóða út. Mestu skiptir að þorrinn af framkvæmdum vegna Hvammsvirkjunar verður boðinn út, þó að framkvæmdatíminn nái yfir mörg ár. Þá ætlar Landsvirkjun einnig í útboð vegna verkefna á Þeistareykjum og í Búrfellslundi auk annarra minni verkefna. Er um að ræða áætluð útboð upp á um 46 milljarða, en engin útboð voru á vegum Landsvirkjunar í fyrra.

Vanda þurfi betur til verka í útboðum

Talsvert var um að útboð sem ráðast átti í á síðasta ári skiluðu sér ekki í samningum. Þannig var stefnt að 108 milljarða útboðum hjá þessum opinberu aðilum, en raunin varð sú að aðeins voru kláraðir samningar upp á um 65 milljarða. Sigurður segir fjölmargar ástæður fyrir þessu. Í fyrsta lagi frestist sum verkefni. Þá segir hann einnig að verkkaupar þurfi í mörgum tilfellum að vanda betur undirbúning útboða og í sumum tilvikum valdi framkvæmd útboðsins því að ekkert tilboð berist eða að þau séu það há að ekki sé hægt að ljúka samningum.

Nefndi hann sem dæmi að það væru of mörg dæmi um að verkkaupendur sendu frá sér útboðsgögn rétt fyrir sumarfrí og að svo ætti að opna gögn rétt eftir verslunarmannahelgi. Segir Sigurður að bæði þurfi að horfa til þess að sumur séu jafnan mesti annatími verktaka og þá séu einnig sumarfrí á þeim árstíma. „Það segir sig sjálft að slíkt er ekki vænlegt til árangurs,“ segir hann um þetta fyrirkomulag.

Þroskamerki hjá hinu opinbera

Sigurður segir þó jákvætt að ríki og opinberar stofnanir og fyrirtæki séu farin að gera áætlanir lengra fram í tímann. „Við skynjum að þetta sé að fara í rétta átt,“ segir hann, en lengi hefur verið bent á að sveiflur í byggingariðnaði hér á landi séu mjög miklar og í raun miklu meiri en í viðskiptahagkerfinu. Þýðir þetta að verktakar hafa oft þurft að bregðast við með skömmum fyrirvara og ráða nýtt fólk eða skala niður þegar hagkerfið hreyfir sig upp eða niður.

 „Við höfum séð á húsnæðismarkaðinum, uppbyggingin þar er orðin nokkuð stöðug,“ segir Sigurður og vísar til þess að nú sé með rauntímagögnum hægt að sjá fram í tímann með uppbyggingartíma íbúðarhúsnæðis. Þá segir hann að í faraldrinum hafi byggingariðnaðurinn sveiflast minna en viðskiptahagkerfið. „Það er öfugt við það sem hefur verið alla tíð. Þetta eru jákvæð merki og dregur fram þessa þróun um að nú séu gerðar áætlanir til lengri tíma og að hið opinbera sé að nýta opinberar framkvæmdir sem hagstjórnartæki.“ Spurður hvort túlka megi þetta sem þroskamerki bæði hjá byggingargeiranum og hinu opinbera játar Sigurður því.

800 milljarða pakki sem er á byrjunarreit

Eins og kynningarnar í dag báru með sér er mikill fjöldi stórra verkefna fram undan, en auk stórra útboða hjá Landsvirkjun eru Landsnet, Veitur, Nýi Landspítalinn og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, önnur en Reykjavík, að horfa á stærri fjárfestingaár fram undan. Þá er ljóst að það styttist í stórar framkvæmdir tengdar borgarlínu, auk annarra stórra verkefna sem tengjast samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Sigurður segir ljóst að fram undan sé vaxtartímabil í greininni. „Maður sér ekki annað en að vöxtur sé í kortunum í byggingariðnaði.“

Nefnir hann jafnframt að horfa verði til þess að miðað við áform ríkisstjórnarinnar varðandi orkuskipti sé gert ráð fyrir samtals 800 milljarða fjárfestingum í þeim málaflokki til ársins 2040, eða um 47 milljarða árlega í 17 ár. „Við erum bara á byrjunarreit og hér erum við að sjá fyrstu verkefnin þar,“ segir hann um tvö verkefni sem Landsvirkjun og Landsnet nefndu í sýnum kynningum. Spurður hvort þá megi búast við tugmilljarða verkefnum fljótlega á næstu árum sem verði eyrnamerkt orkuskipum segir Sigurður það vera rétt, þó að líklega muni sú fjárfesting byrja hægar og aukast svo þegar á líði.

Hefur ekki áhyggjur af áhrifum á þenslu og verðbólgu

En er samt ekki óráðlegt, á sama tíma og ríkið dregur úr fjárfestingum til að slá á þenslu og  og verðbólga er þrálát, að aðrir opinberir aðilar setji fullan kraft í útboð og framkvæmdir? Sigurður segir svo ekki vera „Ég myndi ekki hafa svo miklar áhyggjur af því. Það sem maður hefur meiri áhyggjur af núna er einkaneyslan,“ segir Sigurður og vísar meðal annars í orð seðlabankastjóra þar um. „Það sama með húsnæðismarkaðinn, þar þarf að hemja eftirspurnina, en á sama tíma þarf að auka framboðið,“ segir Sigurður og bætir við að margt af þeim fjárfestingum sem sagt hafi verið frá í dag séu fjárfestingar til framtíðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert