Stoðir íslenskrar bókmenningar hvíli á Laxness

Heiðar Ingi Svansson, formaður Félags íslenskra bókaútgefanda, er verðlaunin voru …
Heiðar Ingi Svansson, formaður Félags íslenskra bókaútgefanda, er verðlaunin voru veitt á síðasta ári á Bessastöðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heiðar Ingi Svansson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, sagði ákveðnar stoðir íslenskrar bókmenningar, þá ekki síst útbreiðsla þeirra á erlendum mörkuðum, enn þann dag í dag hvíla á öxlum höfundarverka Halldórs Kiljan Laxness í ræðu sinni fyrir afhendingu Íslensku bókmenntaverðlaunanna á Bessastöðum í kvöld.

Heiðar lagði sérstaka áherslu á það hve mikilvægt væri að gefa út íslenskar bókmenntir erlendis. Hann nefndi að velgengni höfunda erlendis hafi kallað eftir aukinni þátttöku höfunda í margs konar kynningar- og markaðsstarfi, sem einnig skili sér í aukinni almennri athygli og landkynningu.

„Íslenskir höfundar eru því ekkert síðri stjörnur víða erlendis heldur en allt frábæra íslenska tónlistarfólkið og leikararnir,“ sagði hann.

Ný stórsókn erlendis

Þá hyllti hann starf þýðenda sem snúa úr íslensku yfir á móðurmál sitt en þeir eru tæplega 80 talsins.

„Ekki má heldur gleyma að nefna hversu stuðningur við íslensku kennslu í háskólum hér heima og erlendis hefur skipt miklu máli fyrir nauðsynlega nýliðun í þessari dýrmætu starfsstétt okkar.“

Heiðar sagði þó mikilvægt að stjórnvöld og sérstaklega yfirvöld menningarmála sameinist um nýja stórsókn íslenskra bókmennta erlendis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert