Frítt í strætó á meðan Klapp liggur niðri

Frítt er í strætó á meðan greiðslukerfið liggur niðri.
Frítt er í strætó á meðan greiðslukerfið liggur niðri. mbl.is/Hari

Klapp, greiðslukerfi Strætó bs., sem heldur utan um kaup á strætómiðum og áskriftir liggur niðri að svo stöddu. Vegna þessa hefur því verið beint til vagnstjóra að veita ferðir með strætó án endurgjalds þar til fundin hefur verið lausn á biluninni.

Þetta staðfestir Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, í samtali við mbl.is en kerfið hefur nú legið niðri í rúman klukkutíma. Jóhannes segir það óvíst hvenær kerfið verði komið aftur á. 

Óvitað hvað olli bilun

Aðspurður segir Jóhannes þau hjá Strætó ekki vita að svo stöddu hvað olli biluninni en að unnið sé að því að greina bilunina og lagfæra hana að svo stöddu. 

„Það er verið að vinna í þessu. Þeir hafa ekki gefið okkur nákvæman tíma á því hvenær þetta verður aftur komið í lag.“

„Þetta er bagalegt“

Klapp-appið lá síðast niðri sjötta júlí en að sögn Jóhannesar er þessi bilun frábrugðin því sem gerðist í sumar og bendir á að nú liggi allt greiðslukerfið niðri en ekki einungis forritið.

Þá varð bilunin vegna uppfærslu á greiðslukerfinu sem mistókst en Jóhannes bendir á að nú sé ekki um uppfærslu að ræða og því einhver önnur örsök bilunarinnar. 

„Þetta er í fyrsta skiptið í langan tíma sem greiðslukerfið er niðri. Það voru náttúrulega ákveðnir byrjunar örðugleikar sem tengdust skönnum en þetta er ekkert líkt því. Þetta er bagalegt. Þetta á ekki að geta gerst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert