Miðlunartillagan í samræmi við lög

Samninga- og viðræðunefnd Eflingar hefur mætt í merktum jökkum til …
Samninga- og viðræðunefnd Eflingar hefur mætt í merktum jökkum til samningafunda. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sindri M. Stephensen, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, segir að miðlunartillaga ríkissáttasemjara, vegna kjaraviðræðna Samtaka atvinnulífsins og Eflingar, hafi verið lögð fram sökum þess að samningsumleitanir ríkissáttasemjara hafi ekki skilað árangri.

Hvergi kveðið á um þegjandi samþykki

Samkvæmt orðalagi laga um stéttarfélög og vinnudeilur sé það ein forsenda miðlunartillögu ríkissáttasemjara að hann hafi áður ráðgast við samninganefndir aðila áður en slík tillaga sé lögð fram. Orðalagið laganna gefi ekki til kynna að báðir aðilar vinnudeilu þurfi að hafa veitt efni miðlunartillögu þegjandi samþykki sitt.

Í ályktun miðstjórnar ASÍ um málið frá því í gær sagði:

„ASÍ telur heimild sáttasemjara jafnframt bundna við að átt hafi sér stað náið samráð við aðila um efni hennar og að hún eigi ekki að leggjast fram án þess að hafa a.m.k. þegjandi samþykki beggja aðila. Hvorugt þessara skilyrða sé uppfyllt.“

Sindri Stephensen, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Hann hefur …
Sindri Stephensen, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Hann hefur einnig kennt vinnurétt. Ljósmynd/Háskólinn í Reykjavík

„Í lögunum segir að ríkissáttasemjari eigi að ráðgast við samninganefndir aðila um tillöguna áður en hún er lögð fram en þar er ekki kveðið á um hve langt það á að ganga. Ekki verður ráðið að gerð sé sérstaklega ströng krafa um inntak samráðsins eða samtalsins, en ætla má að kynna þurfi efni miðlunartillögunnar sannanlega fyrir báðum aðilum áður en lengra er haldið og óska eftir afstöðu þeirra til hennar.”

Fljótt fram komin en deilan í hnút

Sindri segir að þótt miðlunartillagan komi fram nokkuð fljótt eftir að fyrir lá að deilan væri komin í hnút, þá gefi fyrirliggjandi upplýsingar til kynna að miðlunartillagan samrýmist ákvæðum laga um stéttarfélög og vinnudeilur að þessu leyti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert